Ísland þýðingarmikill hlekkur í Atlantshafsbandalaginu

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heimsótti Landhelgisgæslu Íslands í dag.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heimsótti Landhelgisgæslu Íslands í dag. mbl.is/Kristinn

„Ísland er hátt metinn bandamaður,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á blaðamannafundi sem hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu fyrr í dag í kjölfar fundar síns. Stoltenberg nefndi sem dæmi þau verkefni sem Íslendingar hefðu með höndum fyrir bandalagið, en þeir sinntu til dæmis þjálfun og ráðgjöf á öryggissveitum í Afganistan og styddu við friðarviðleitni bandalagsins í Úkraínu. Þá nefndi Stoltenberg sérstaklega þá forystu sem Ísland hefði veitt varðandi þau tengsl sem væru á milli kvenna, friðar og öryggismála. 

Stoltenberg sagðist vera ánægður með heimsóknina, en hann hefði heimsótt landið mörgum sinnum. Þetta væri hins vegar í fyrsta sinn sem hann kæmi sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Á fundinum lagði Stoltenberg áherslu á að Ísland væri eitt af stofnríkjum Bandalagsins og væri í miðpunkti þess, ekki síst vegna landfræðilegrar legu landsins mitt á milli Ameríku og Evrópu. Landið væri því í einstakri stöðu til að tryggja að tengslin þar á milli væru traust. 

Sigmundur Davíð og Stoltenberg sögðust báðir vera mjög ánægðir með fundinn, en þar fóru þeir yfir nýlega þróun í öryggis- og varnarmálum heimsins, einkum hvað varðaði Austur-Evrópu og Ríki íslams, auk þess sem farið var yfir stöðu mála í Afganistan og hvað varðaði netöryggi.

Gengið í gegnum breytingaskeið í varnarmálum

Stoltenberg sagði framlag Íslendinga mikilvægt vegna þeirra miklu breytinga sem nú ættu sér stað í varnarmálum. Nefndi hann að Rússar væru ákveðnari, og að þeir hefðu brotið alþjóðalög með því að innlima hluta af öðru fullvalda ríki, en það væri í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldar sem slíkt hefði gerst í Evrópu. Þá væri einnig órói við suðurlandamæri bandalagsins, þar sem Ríki íslams og ótryggt ástand í norðurhluta Afríku kölluðu á viðbrögð. 

Stoltenberg nefndi sem dæmi um þau viðbrögð að verið væri að auka viðbúnað hersveita bandalagsins, og að fjölgað hefði verið í viðbragðsliði þess úr 13.000 manns í 30.000. Hryggjarstykkið væri hins vegar hraðlið bandalagsins, en miðað væri við að þrautþjálfaðar sveitir gætu verið komnar á átakasvæði innan tveggja sólarhringa frá því að átök hefjast. Með þessum viðbúnaði væri verið að byggja til framtíðar, með því að sýna það að bandalagið gæti varið meðlimi sína fyrir utanaðkomandi hættu.

Aðspurður um nýleg brot á vopnahléinu í Úkraínu sagði Stoltenberg að hann hefði áhyggjur af ástandinu, því það væri mikilvægt að Minsk-samkomulagið héldi gildi sínu, en það væri besti grunnurinn að friðsamlegri lausn á deilunni.  „Það er því mikilvægt að við styðjum allar tilraunir til þess að vopnahléið og samkomulagið séu virt og haldin í heiðri,“ sagði Stoltenberg.

Nefndi hann til dæmis þær kvaðir sem samkomulagið legði á stríðsaðila að draga þungavopn sín til baka frá víglínunni. Kallaði Stoltenberg jafnframt eftir því að Rússar hættu að styðja við bakið á aðskilnaðarsinnum og nýttu ítök sín meðal þeirra til að tryggja að þeir stæðu við sinn hluta vopnahlésins. 

Of snemmt að segja til um leitar- og björgunarmiðstöð

Aðspurður um það hvort að forsætisráðherra og Stoltenberg hefðu rætt samstarf um leit og björgun sagði Stoltenberg að þeir hefðu rætt mikilvægi þess að bandalagið hefði fótfestu í þessum heimshluta og vilja þess til þess að sinna loftrýmisgæslu og eftirliti. Vék Stoltenberg að því á fundinum að hann hefði heimsótt varnarsvæðið í Keflavík og skoðað aðstöðuna þar, sem sýndi svart á hvítu þau tengsl sem bandalagið vildi hafa við Íslendinga. 

Stoltenberg tók fram að þeir Sigmundur hefðu einnig rætt málefni leitar og björgunar í Norðurhöfum, en að sagði of snemmt að segja til um hvernig slíkt samstarf myndi þróast. Stoltenberg hrósaði í því samhengi því mikilvæga framlagi sem Landhelgisgæslan íslenska hefði lagt þar til.

Fagnar auknu samstarfi Norðurlandanna

Stoltenberg var ennfremur spurður út í nýlega yfirlýsingu varnarmálaráðherra Norðurlandanna, þar sem þeir sögðust vilja auka samstarf sín á milli í varnarmálum. Stoltenberg sagðist fagna því ef Norðurlöndin tækju höndum enn frekar saman í varnarsamstarfi sínu, og þá einnig ef því fylgdu aukin tengsl á milli Atlantshafsbandalagsins og Finnlands og Svíþjóðar, sem ættu í góðu samstarfi við bandalagið. Aukið samstarf væri góð leið til þess að deila með sér þeim úrræðum sem þjóðirnar byggju yfir sitt í hvoru lagi, og það myndi einnig auka getu bandalagsins til þess að halda sterkri verndarhendi yfir Norðurlöndunum. 

Spurður út í þá stuðningsyfirlýsingu handa Eystrasaltsríkjunum sem lesa mátti út úr tilkynningu ráðherranna sagði Stoltenberg að lykilatriðið væri að tryggja hlutverk bandalagsins, að sinna sameiginlegum vörnum, þannig að ljóst væri að árás á einn væri árás á alla. Það gilti um Eystrasaltsríkin jafnt og öll hin bandalagsríkin og væri ein helsta ástæðan fyrir því að búið væri að auka viðbúnað bandalagsins í þeim löndum sem vita til austurs, Eystrasaltsríkjunum sem öðrum. 



Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heimsótti Landhelgisgæslu Íslands í dag.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heimsótti Landhelgisgæslu Íslands í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Jens Stoltenberg funduðu í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Jens Stoltenberg funduðu í dag. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert