„Heyrði okkur tala á öðru tungumáli“

„Hún heyrði okkur tala á öðru tungumáli og varð forvitin. Hún spurði mig hvað ég héti og hversu gömul ég væri og hvaða ég kæmi,“ segir Lilja Hrönn Önnu Hrannarsdóttir, en hún var stödd í dag á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn ásamt móður sinni, systur og vinafólki ásamt miklum fjölda fólks þegar Margrét Danadrottning kom út á svalir ráðhússins og veifaði mannfjöldanum. Drottningin á sem kunnugt er 75 ára afmæli í dag.

Fréttakona frá danska ríkisútvarpinu DR stóð rétt hjá Lilju Hrönn og sneri sér við þegar hún heyrði hana tala annað tungumál en dönsku við samferðarfólk sitt. Samskiptin fóru að sjálfsögðu fram á dönsku. „Síðan spurði hún mig líka að því hvort ég vissi að drottningin ætti afmæli í dag og hvort ég hefði komið sérstaklega til Danmerkur vegna afmælisins. Líka hvað mér þætti um drottninguna þar sem það er ekki drottning á Íslandi.“

Lilja Hrönn segir aðspurð að stemningin hafi verið mjög góð á Ráðhústorginu. „Það var gríðarlega mikið af fólki þarna, allir með danska fána að syngja lög. Það voru fullt af kórum þarna og bara ótrúlega gaman. Og að sjá síðan drottninguna veifa. Hún var mjög glaðlynd og veifaði fallega. En hún var ekki lengi á svölunum því það var frekar kalt og hatturinn hennar var alltaf næstum að fjúka af henni,“ segir hún og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert