Höfundarnir afhendi þinginu „leyniskýrslur“

Frá fundi kröfuhafa Glitnis. Forsætisráðherra telur þá stunda njósnir á …
Frá fundi kröfuhafa Glitnis. Forsætisráðherra telur þá stunda njósnir á Íslandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Forsætisráðherra telur eðlilegast að þeir sem hafa skrifað skýrslur fyrir erlenda kröfuhafa sem hann kallaði „leyniskýrslur“ á flokksþingi Framsóknarflokksins verði beðnir um að afhenda þær. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði hvort að ekki væri rétt að nefndir Alþingis fengju eintök af skýrslunum.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag hélt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, því fram að fulltrúar kröfuhafa föllnu bankanna hefðu tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um mál þeirra eða teldust líklegir til að geta haft áhrif á gang mála. „Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það,“ bætti hann við. Talaði hann jafnframt um að „leyniskýrslur“ hafi verið skrifaðar reglulega fyrir kröfuhafana og að sálgreiningar hafi jafnvel verið gerðar á fólki.

Birgitta spurði forsætisráðherra út í þessi ummæli hans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Meðal annars hefði komið í ljós að „leyniskýrslurnar“ sem hann hefði vísað til væru fréttabréf sem unnið væri af almannatengli hér á landi fyrir hóp kröfuhafa. Hún taldi ástæðu til þess að þingnefndir fengju aðgang að þessum skýrslum ef þær væru til og spurði ráðherrann því hvort að hann hefði þær undir höndum.

Sigmundur Davíð tók undir að æskilegt væri að þingnefndir, og sem flestir, kynntu sér efni þessara skýrslna. Æskilegt væri að þingmenn yrðu sér út um þær og taldi hann það ekki eiga að vera mikið vandamál þar sem að þeir sem hafi séð um utanumhald með þeim væru þingmönnum sumum hverjum vel kunnir.

Geta leitað annarra leiða ef þeir eru ekki tilbúnir

Birgitta spurði hins vegar hvort ekki væri einfaldara að forsætisráðuneytið kæmi þessum skýrslum áleiðis til þingnefnda þar sem að forsætisráðherra hefði haft aðgang að þeim. Spurði hún hvort að eitthvað stæði í vegi fyrir því.

„Ég myndi telja eðlilegast og einfaldast í ljósi þess að einhverjir þeirra að minnsta kosti sem hafa skrifað þessar skýrslur hafa gefið sig fram að þeir séu sjálfir beðnir um að afhenda skýrslurnar. Það liggur beinast við að þeir afhendi skýrslurnar. Ef að þeir eru ekki tilbúnir til þess af einhverjum sökum þá getum við reynt að leita annarra leiða til þess að þingið geti fjallað um þessi mál,“ svarði Sigmundur Davíð.

Fyrri frétt mbl.is: Kröfuhafarnir njósna og sálgreina

Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jóns­dótt­ir, þingmaður Pírata. Photo: Ómar Óskars­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert