Máli hælisleitanda var aldrei áfrýjað

Felix Bassey.
Felix Bassey.

Rétt fyrir miðnætti á þriðjudaginn var hætt við frávísun hælisleitanda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en í skoðun er hvort áfrýjun hans á ákvörðun Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins hafi ekki borist yfirvöldum.

Hælisleitandinn, sem heitir Felix Bassey, er flóttamaður frá Nígeríu og hefur verið á flótta frá 2008. Fyrir rétt rúmu ári fékk hann synjun á hælisumsókn sinni frá innanríkisráðuneytinu. Málinu var áfrýjað, eða allavega taldi Bassey að svo væri.

Á mánudaginn fékk hann símtal frá lögreglunni um að honum yrði vísað úr landi á miðvikudaginn í þessari viku. Aðstandendur Bassey brugðust við þessum boðum með að athuga með stöðu áfrýjunar hans. Kom þá í ljós að svo virðist vera sem áfrýjunina sé ekki að finna í opinberum skrám.

Málinu var aldrei áfrýjað

Benjamín Julian Plaggenborg, einn þeirra sem hafa aðstoðað Bassey, segir í samtali við mbl.is að málinu hafi aldrei verið áfrýjað af lögmanni Bassey. Segir hann að annað hvort hafi komið upp alvarlegur misskilningur eða vanræksla sem hafi valdið því að málinu var aldrei áfrýjað. Segir hann að Felix verði nú úthlutað nýjum lögmanni, en svo virðist vera sem aðila greini á um hvort málið hafi verið á herðum lögmannsins eftir úrskurð innanríkisráðuneytisins í fyrra.

Verður skoðað á morgun

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að málið verði skoðað á morgun, en þegar spurt var um ástæður þess að fallið var frá frávísuninni segir hún að ákveðin mál hafi þarfnast skoðunar. Segir hún að ábending hafi borist fyrir miðnætti á þriðjudaginn sem tekin hafi verið til skoðunar. „Flutningi var frestað tímabundið meðan atriði eru skoðuð sem gætu haft áhrif á flutning,“ segir hún.

Kristín tekur þó fram að niðurstaða Útlendingastofnunar og ráðuneytisins liggi fyrir og því sé ekki um það að ræða að málið verði tekið upp aftur, heldur mögulega tæknilega annmarka málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert