Rannveig þiggur ekki hækkunina

Rannveig Rist.
Rannveig Rist. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hluthafar samþykktu tillögu stjórnar um þóknun stjórnarmanna með öllum greiddum atkvæðum. Ég er ekki hluthafi,“ segir Rannveig Rist í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna umræðu um hækkun stjórnarlauna í HB Granda, þar sem hún situr í stjórn, um 33%.

Tilefni yfirlýsingarinnar er sú að sögn Rannveigar að umræðan hafi að hluta til beinst að henni vegna stöðu hennar í stjórn Samtaka atvinnulífsins. „Á milli aðalfunda urðu þær breytingar hjá HB Granda að fyrirtækið var skráð á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. Það felur í sér að meira reynir á stjórnarhætti fyrirtækisins en áður, sem ekki er óeðlilegt að endurspeglist að einhverju leyti í þóknun stjórnar.“

Rannveig segir að þrátt fyrir hækkunina sé þóknun stjórnarmanna hjá HB Granda sú næstlægsta meðal fyrirtækja á Aðallistanum. „Eftir á að hyggja er hækkunin á milli ára hins vegar úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi. Ég hef því ákveðið að þiggja hana ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert