Vandamál fyrir fangelsisyfirvöld

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson eru meðal ákærðu í …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson eru meðal ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sem hefst eftir helgi. Mynd/mbl.is

Lengd aðalmeðferðar í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er fordæmalaus þegar haft er í huga að tveir hinna ákærðu sitja nú í fangelsi. Málið sýnir ákveðna veikleika í fangelsismálum hér á landi, aðallega þegar kemur að aðstöðu fanga meðan mál þeirra er fyrir dómi.

Málið án fordæma

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings, munu á þessu tímabili dvelja í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, en keyrsla fram og til baka upp á Kvíabryggju, þar sem þeir nú afplána dóma sína, tæki um fimm tíma hvern dag.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að meginreglan sé sú að þegar einstaklingar séu í afplánun en þurfi að mæta í aðalmeðferð séu þeir fluttir til Reykjavíkur og ekki til baka fyrr en aðalmeðferð lýkur. „Þetta mál er aftur á móti án fordæma,“ segir Páll og vísar þar í lengd meðferðarinnar. Gert er ráð fyrir að hún nái frá 20. apríl til 22. maí, eða í fimm vikur.

Ráða ekki við daglega flutninga

„Við keyrum ekki landshluta á milli á hverjum degi með fanga,“ segir Páll, en fjárráð stofnunarinnar ráði ekki við það. „Við eigum ekki bíla né mannafla í svona flutninga,“ segir hann.

Mörg flókin mál koma upp þegar vona stórt mál er á dagskrá að sögn Páls og segist hann ekki muna eftir að aðalmeðferð í nokkru máli hafi tekið svona langan tíma þegar fangi í afplánun átti í hlut. „Þetta er eitthvað nýtt og það er náttúrulega engin aðstaða heldur fyrir þetta neins staðar,“ segir hann um aðstöðuna í Reykjavík.

Hann bendir á að tryggja þurfi föngum aðgengi að lögmönnum sínum og að stofnunin muni gæta þeirrar skyldu sinnar. Aðspurður um hvort fangarnir verði keyrðir á Kvíabryggju um helgar segir Páll að slíkt sé enn í skoðun.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert