Alvarlega veikir sitja aftar á merinni

Á sama tíma og stjórnvöld lýsa áhuga á að minnast 100 ára fullveldis frá Dönum þann 1. desember 2018 með „stórfelldum byggingaframkvæmdum“ stöndum við frammi fyrir umtalsverðum brotalömum í þjónustu heilbrigðiskerfisins við landsmenn. „Nær daglega berast fréttir af alvarlegri stöðu í heilbrigðiskerfinu og þjónustan þess eðlis um þessar mundir að ekki verður við unað,“ segir í fréttatilkynningu frá Frumtökum.

Eins og greint var frá í síðustu viku eru engar fjárheimildir til staðar fyrir nýjum sjúkrahúslyfjum enda þótt nú sé aðeins liðið á aprílmánuð á fjárhagsárinu.

„Það liggur því nánast fyrir að alvarlega veikir sjúklingar hér á landi muni sitja áfram aftar á merinni en sjúklingar í nágrannalöndunum þegar kemur að aðgangi lækna að nýjum og árangursríkari meðferðarúrræðum sjúklingum sínum til handa,“ segir í fréttatilkynningu frá Frumtökum. „Þann aðgang hafa sjúklingar í hinum löndunum nú í ríkari mæli en raunin er hér á Íslandi.“

Það er skoðun Frumtaka að það sé rangt sem fram kom hjá forstjóra Sjúkratrygginga Íslands í viðtali við Fréttablaðið að Ísland þoli enn samanburð við nágrannalöndin þegar skoðuð er innleiðing nýrra lyfja hér á landi og erlendis.

„Það var t.d. staðfest í skýrslu sem Frumtök kynntu s.l. haust og hefur aldrei verið jafn skýrt og nú þegar virðist blasa við að engin ný sjúkrahúslyf verði innleidd á árinu 2015. Þá er sérstakt að forstjóri SÍ velti því fyrir sér hvort búið sé að „þurrausa alla möguleika til að ná kostnaði niður“ vegna sjúkrahúslyfjanna, þegar staðreyndin er sú að hér á landi, allt frá árinu 2010, hafa þau verið á lægsta verði á Norðurlöndunum skv. reglugerð heilbrigðisráðherra.“

Frumtök segja það því hljóma ankannanlega að heyra forystumenn ríkisstjórnarinnar lýsa yfir áhuga á að ráðast í „milljarða króna fjárfestingar í opinberum byggingum, t.d. fyrir skrifstofur Alþingis, í uppbyggingu á Þingvöllum og nýbyggingu fyrir Stofnun íslenskra fræða á Melunum, á sama tíma og við blasir að fjármögnun heilbrigðiskerfisins er ekki sem skildi.“

Því færi vel á því, að mati Frumtaka, að um leið og stórfengleg byggingaráform hins opinbera eru kynnt, „að stjórnvöld lýstu því yfir að við sem þjóð viljum og munum standa til jafns við Norðurlöndin þegar kemur að gæðum heilbrigðisþjónustunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert