Hærri tekjur og lægri skuldir

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. mvl.is/Ómar Óskarsson

Rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar var jákvæð um 434 milljónir krónur á síðasta ári samkvæmt ársreikningi hans. Í tilkynningu frá bænum kemur fram að þetta sé mun betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Skuldir bæjarins lækkuðu um 161 milljón kr. og skuldahlutfallið úr 55% í 45%.

Fjárhagsáætlun bæjarins hafði gert ráð fyrir 12 milljón króna rekstrarafgangi. Meginskýringin á því að afkoman var jákvæð um hundruð milljóna er sögð sú að tekjur hafi orðið hærri en áætlunin gerði ráð fyrir.

Heildarskuldir og skuldbindingar í árslok námu alls 1.539 m.kr. og lækkuðu um 161 m.kr. á árinu. Hreint veltufé í árslok nam 958 m.kr. og hækkaði um 365 m.kr. frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 4,2 í árslok 2014 (2013: 1,8). Skuldahlutfallið lækkaði milli ára úr 55% í 45%. 

Íbúum á Seltjarnarnesi hefur fjölgað síðastliðin þrjú ár og nam fjölgunin 0,9% milli áranna 2013 og 2014. Skatttekjur á árinu 2014 námu 568 þús. kr. á íbúa og skuldir á íbúa í árslok 2014 námu 122 þús. kr. Til samanburðar námu meðalskuldir á íbúa höfuðborgarsvæðisins í árslok 2013 1.730 þús. kr. eða tíu sinnum meira en á íbúa á Seltjarnarnesi, að því er kemur fram í tilkynningu frá bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert