Matvælaskortur veltur á undanþágum

Verkfall BHM hefur m.a. áhrif á kjúklingabændur frá og með …
Verkfall BHM hefur m.a. áhrif á kjúklingabændur frá og með mánudeginum í næstu viku. Sverrir Vilhelmsson

Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segist ansi hræddur um að áhrifa verkfalls 50 starfsmanna Matvælastofnunar sem hefst á mánudaginn eftir helgi verði fyrst vart í sláturhúsum landsins, þá sérstaklega í sláturhúsum fyrir alifugla og svín. 

„Það þarf að vera dýralæknir til staðar í sláturhúsunum þegar það er verið að slátra og því ekkert að gera fyrir matvælaframleiðendur annað en að sækja um undanþágur,“ segir hann. 

Undanþágunefnd hefur verið skipuð en í undanþágunefndinni situr einn fulltrúi skipaður af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og einn fulltrúi Dýralæknafélags Íslands. Jón segir að stefna undanþágunefndarinnar hafi allt um það að segja hvort matvælaskortur kunni að verða hérlendis.

50 starfmenn af 85 hjá Matvælastofnun eru í þremur aðildarfélögum BHM sem boðað hafa til ótímabundins verkfalls frá og með næstkomandi mánudegi. Félögin þrjú sem um ræðir eru Félag íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði og Dýralæknafélag Íslands. 

Verkfallið hefur fyrst og fremst áhrif á eftirlit með frumframleiðslu, kjötvinnslu, mjólkurbúum og sláturhúsum en útflutningur sjávarafurða getur í vissum tilvikum orðið fyrir áhrifum.

Formaður Dýralæknafélags Íslands segir í samtali við mbl að aldrei sé farið í verkfall án þess að það hafi afleiðingar en á sama tíma heldur framkvæmdastjóri Matfugls í vonina um að undanþágur til slátrunar verði veittar þar sem fyrirtækið lendi annars í miklum vandræðum.

Dýravelferð verður fljótt að vandamáli

Jón þorir ekki að spá til um það hvort undanþágur til slátrunar verði veittar en segir að verði slíkar undanþágur ekki veittar komi fljótlega upp dýravelferðarmál er snúa að svínum og alifuglum þar sem er mikill vaxtarhraði og þröngt verður í húsum á skömmum tíma.

Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls, tekur í sama streng og Jón og segir hann Matfugl lenda í vandræðum ef undanþágur til slátrunar verða ekki veittar þar sem fyrirhugað er að slátra 45 þúsund alifuglum í næstu viku.

„Það er ekkert hægt að slátra langt fram í tímann. Kjúklingurinn passar þá ekki í línuna og því er ekki hægt að slátra fugli sem ætlaður er til slátrunar á föstudaginn í næstu viku núna um helgina,“ segir hann. Eins getur Matfugl aðeins slátrað vissu magni á hverjum degi ef tryggja á rétt geymsluþol og hitastig.

Í febrúar var reglugerð um velferð alifugla breytt hérlendis og þurfa nú matvælaframleiðendur að minnka magn fugla sem þeir setja inn í húsin. Sveinn segir að ef það þurfi að seinka slátrun um tvo til þrjá daga sé fyrirtækið komið fram úr viðmiðum nýju reglugerðarinnar. 

„Þéttleikinn er mjög fljótur að verða of mikill. Húsin verða bara stútfull ef það verður ekki horft í þessi sjónarmið,“ segir hann.

Undanþágur verða veittar í ákveðnum tilfellum

„Undanþágur eru veittar í ákveðnum tilfellum. Það er ekkert planað fram í tímann,“ segir Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands. Hún segir að þar sem verkfallið sé ekki hafið sé nefndin ekki tekin til starfa og því með öllu ótímabært að segja til um það hver stefna nefndarinnar verður varðandi ýmis mál.

Meðal annarra verkefna sem dýralæknar hjá Matvælastofnun sinna núa að inn- og útflutningi bæði á matvælum og lifandi dýrum. Ekki þarf vottun dýralækna á sjávar- og landbúnaðarafurðir innan EES en lönd á borð við Rússland gera slíka kröfu.

Fyrirtæki sem stunda viðskipti við lönd utan EES gætu því þurft að sækja um undanþágur hjá undanþágunefndinni til þess að geta stundað sín viðskipti áfram.

Guðbjörg segir að öruggt sé að undanþágubeiðnir vegna dýravelferðarmála verði samþykktar af undanþágunefndinni en segir að óvíst sé með aðrar undanþágur.

„Það fer enginn í verkfall án þess að það hafi áhrif,“ segir hún.

Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar.
Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar. Ljósmynd/Jón Gíslason
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. mbl.is/Árni
Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, (t.v.).
Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, (t.v.). mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert