Ólíkir hópar með ólíkar kröfur

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eina leiðin sem var fær í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins var að vísa þeim til sáttasemjara. Flækjan í deilunum, þar sem átt var við mjög ólíkar kröfur margra hópa með ólíkar og ósamrýmanlegar áherslur, var þannig að ekki var lengra komist í viðræðum við staka aðila. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en hann telur að samræma þurfi viðræður við ólíka hópa.

Ekki hægt að semja aðskilið við hvern og einn hóp

„Það er alveg ljóst að í viðræðum þar sem hver hópur er að krefjast leiðréttinga og launahækkana að það er ekki hægt fyrir samtökin að spila inn aðskildum tilboðum fyrir hvern og einn,“ segir Þorsteinn og bætir við „Það fordæmi sem mun myndast með samningum við einstaka hópa mun ganga yfir allan vinnumarkaðinn.“

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér aðkomu stjórnvalda að málinu segir Þorsteinn að þetta sé fyrst og fremst mál aðila vinnumarkaðarins. Þó sé ýmislegt sem stjórnvöld geti gert til að liðka fyrir viðræðum, t.d. í gegnum skattkerfisbreytingar. Segir hann að slíkar hugmyndir þurfi þó að vera samkvæmt sameiginlegu mati beggja aðila.

Þorsteinn er að svo stöddu ekki tilbúinn að nefna nákvæmlega hvaða liði gæti verið um að ræða, en bendir á að það gæti bæði verið í gegnum skattakerfið eða húsnæðiskerfið.

SGS fer fram á miklar hækkanir upp allan launastigann

Talsvert hefur borið í milli samningsaðila þegar aðeins er horft til launaliðar, en meðal krafna Starfsgreinasambandsins (SGS) er að lægstu laun hækki upp í 300 þúsund krónur. Þorsteinn segir kröfu SGS ekki bundna við lægstu laun, heldur sé verið að horfa á sambærilega hækkun upp allan stigann og þá aðallega hjá þeim í efstu þrepum launataxtans.

Í vikunni blossaði upp megn óánægja meðal launþegahreyfingarinnar þegar samþykkt var að hækka laun stjórnarmanna í HB Granda um 33%. Aðspurður um hvernig hann líti málið segir Þorsteinn að fyrirtækið hafi nú þegar skýrt sína hlið og að jafnvel eftir hækkunina greiði HB Grandi ein lægstu stjórnarlaunin í Kauphöllinni. Hann viðurkennir þó að tímasetningin hafi hleypt illu blóði í viðræðurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert