Öxi opnuð í fyrsta skipti í ár

Við snjóruðning á Öxi í vikunni.
Við snjóruðning á Öxi í vikunni. Mynd/SG vélar

Öxi var opnuð í gær, en vegurinn hefur verið lokaður síðan 5. desember. Stefán Gunnarsson, eigandi SG véla sem annast snjóruðning á veginum, segir að opnunin í ár hafi verið á svipuðum tíma og síðustu tvö ár, talsvert hafi verið um skafla, en í ár hafi þó verið talsvert minni snjór norðan megin á heiðinni.

Stefán segir að stefnt sé að því að halda veginum opnum áfram, en talsverðan tíma tók að hreinsa hann upp. Hófu starfsmenn SG véla að moka hann á hádegi á mánudegi, en kláruðu ekki verkið fyrr en í gær. Samtals var því um þriggja og hálfs dags verk að ræða.

Öxi er flokkaður sem tengivegur og hefur númerið 939. Vegurinn liggur upp úr Berufirði yfir á Hérað í norðri og styttir vegalengdina milli Djúpavogs og Egilsstaða umtalsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert