Bjart yfir landinu á morgun

Veðurguðirnir hafa aðeins farið að brosa út í annað til okkar Íslendinga undanfarið og verður morgundagurinn bjartur og fínn, sérstaklega fyrri hluti dags. Seinni partinn gæti farið að draga fyrir sólina á suðvesturhorninu og einhver rigning orðið á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. 

Á Austur- og Norðurlandi fer hitastigið hæst upp í 13 gráður og heiðskírt verður á stöku stað eins og myndin sýnir. Víða annars staðar verður hitinn í kringum 8 stig. Vindasamt getur þó orðið á suðvesturhorninu og á Vestfjörðum. 

Á mánudag fer að rigna í Reykjavík og á Vesturlandi en enn verður heiðskírt og hlýtt á Norðaustur- og Austurlandi með hita í kringum 11 gráður. Þannig helst veðrið fram á miðvikudag þegar aftur fer að birta til á Suðurlandi en ský koma þá yfir Norðurland. 

Á fimmtudag verður bjart á höfuðborgarsvæðinu en kólna fer á Norður- og Austurlandi og gæti jafnvel fallið snjór þá. 

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert