Formaður Samtaka iðnaðarins með 617 þúsund í stjórnarlaun

Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Samtaka iðnaðarins, stærsta aðildarfélags Samtaka atvinnulífsins. …
Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Samtaka iðnaðarins, stærsta aðildarfélags Samtaka atvinnulífsins. Hún fær greiddar 617 þúsund krónur á mánuði fyrir stjórnarformennsku í SI. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki er greidd þóknun fyrir setu í stjórn Samtaka atvinnulífsins og formaður þiggur ekki laun. Hjá stærsta aðildarfélaginu, Samtökum iðnaðarins, fær formaður hins vegar 617 þúsund krónur á mánuði og varaformaður þriðjung þeirra launa. Önnur aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins greiða ýmist engin stjórnarlaun eða margfalt lægri upphæðir til formanna.

Um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði starfa hjá einhverju af þeim 2.000 fyrirtækjum sem heyra undir Samtök atvinnulífsins. Samtökin eru regnhlífarsamtök sex aðildarsamtaka á vinnumarkaði en þau eru Samorka (Samtök orku- og veitufyrirtækja), Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Í stjórn Samtaka atvinnulífsins sitja 20 manns og í framkvæmdastjórn sitja formaður og varaformaður samtakanna ásamt sex einstaklingum úr hópi stjórnarmanna. Ekki er greitt fyrir setu í þessum stjórnum, en þeir sem sitja í stjórn SA eru jafnan einnig í stjórnum aðildarfélaga. Formaður stjórnar SA, Björgólfur Jóhannsson, er ekki á launum hjá samtökunum.

Aðildarfélögin sex virðast hafa ólíkan hátt á þegar kemur að þóknun vegna stjórnarsetu. Samtök iðnaðarins skera sig úr þegar kemur að greiðslum til formanns.

SI greiða mest fyrir stjórnarformennsku

Samtök iðnaðarins eru stærstu samtökin innan SA, með um 1.350 félagsmenn eða fyrirtæki innan sinna vébanda. Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður SI og ólíkt formanni SA þá þiggur hún laun fyrir formennsku sína. Formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins fær greiddar tæpar 617 þúsund krónur á mánuði og varaformaður stjórnar fær þriðjung launa formanns, eða um 206 krónur á mánuði fyrir setu í stjórn.

Hjá Samtökum iðnaðarins sitja 10 manns í stjórn en aðeins formaður og varaformaður fá greitt fyrir stjórnarsetu. Fastir fundir eru haldnir mánaðarlega og aukafundir eftir þörfum.

Engin stjórnarlaun hjá SFF og SAF

Stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja fundar um átta sinnum yfir árið en í stjórninni eiga sæti níu fulltrúar aðildarfélaga. Engin stjórnarlaun eru greidd hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.
Samtök ferðaþjónustunnar greiða heldur enga þóknun til stjórnarmanna eða stjórnarformanns, en þar er fundað mánaðarlega og sitja sjö manns í stjórn hverju sinni.

Greiðslur til stjórnarmanna SFS afnumdar

Hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, sitja 19 manns í stjórn. Á síðasta aðalfundi var ákveðið að þóknun til almennra stjórnarmanna skyldi afnumin. Formaður stjórnar SFS, Jens Garðar Helgason, og varaformaðurinn Jón Eðvald Friðriksson fá þó greitt fyrir stjórnarsetuna. Formaður fær 250 þúsund krónur á mánuði og varaformaður 125 þúsund krónur á mánuði.

Fjórir stjórnarmenn auk formanns og varaformanns skipa svokallað framkvæmdaráð en hver þeirra fjögurra fær greiddar 50 þúsund krónur á mánuði fyrir setu í ráðinu.
Samtök verslunar og þjónustu greiða stjórnarformanni sínum Margréti Sanders 20 þúsund krónur á mánuði í stjórnarlaun og 40 þúsund krónur að auki í ökutækjastyrk. Samtals fær formaður SVÞ því 60 þúsund krónur á mánuði í þóknun, aðrir stjórnarmenn fá ekki greitt. Í stjórn SVÞ sitja sjö manns og fundir eru einu sinni í mánuði.

Afsala sér þóknun

Hjá Samorku eru greidd stjórnarlaun en samkvæmt upplýsingum frá samtökunum hafa fjórir af sjö stjórnarmönnum afsalað sér þóknuninni undanfarin ár. Ástæðan er úrskurður kjararáðs um launakjör forstöðumanna fyrirtækja í ríkiseigu. Laun stjórnarmanna hjá Samorku eru 15 þúsund krónur á mánuði en formaður stjórnar fær tæpar 30 þúsund krónur á mánuði fyrir sín störf.

Laun formanns Samtaka iðnaðarins fyrir stjórnarsetu í samtökunum eru sér á parti eins og ljóst má vera af samantekt um stjórnarlaun í þeim sex aðildarfélögum sem mynda Samtök atvinnulífsins.

Næsthæstar greiðslur til formanns og varaformanns eru hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þó eru þær aðeins hluti af því sem greitt er í stjórnarlaun hjá SI. Til að setja upphæðirnar í samhengi þá nema samanlagðar greiðslur til formanns, varaformanns og fjögurra annarra í framkvæmdaráði Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi samanlagt 575 þúsund krónum á mánuði, eða um 42 þúsund krónum minna en greiðslur til formanns Samtaka iðnaðarins á mánuði.

Formaður SI hefur alltaf verið á launum

Formaður Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir, gegnir starfi markaðsstjóra hjá Kjörís. Varaformaður samtakanna er Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits.
Að sögn Jóns Bjarna Gunnarssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, er hefði fyrir því að formaður SI fái greitt fyrir störf sín fyrir samtökin.

„Formaður og að hluta til varaformaður taka mjög virkan þátt í starfi samtakanna og mæta á fundi sem fulltrúi samtakanna í mörgum tilfellum. Formanni hafa verið greidd laun fyrir störf sín frá stofnun samtakanna og fyrir nokkrum árum var ákveðið að greiða varaformanni einnig. Við lítum svo á að bæði formaður og varaformaður vinni alveg fyrir þessu,“ segir Jón Bjarni.

mbl.is
Ólíkt hafast formennirnir að í Húsi atvinnulífsins. Formenn SFF, SAF …
Ólíkt hafast formennirnir að í Húsi atvinnulífsins. Formenn SFF, SAF og SA þiggja engin laun fyrir störf sín fyrir félögin. Kristinn Ingvarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert