Fylltu heilu föturnar í Hvalfirði

Um 300 manns mættu í kræklingaferð í Hvalfjörð í dag.
Um 300 manns mættu í kræklingaferð í Hvalfjörð í dag.

Tæplega þrjú hundruð manns fóru niður í fjöru í Hvalfirði í dag á vegum Ferðafélags barnanna til að tína krækling. Leiddu tveir prófessorar við Háskóla Íslands gönguna um fjöruna og fræddu viðstadda um dýrategundina og nýtingarmöguleika hennar. Að lokum var boðið upp á soðinn krækling, auk þess sem margir tóku með sér fullar fötur af kræklingi og sölvum til að matreiða heima.

Ferðafélag barnanna er afsprengi frá Ferðafélagi Íslands og er hugmyndin að vera með fjölskyldumiðaðar ferðir fyrir fólk á öllum aldri. Það var því fólk á öllum aldri sem mætti í Hvalfjörð í dag, en aðstandendur ferðarinnar gerðu ráð fyrir að heildarfjöldinn væri um þrjú hundruð manns.

Ferð sem þessi hefur verið farin undanfarin ár, en nauðsynlegt er að finna góða fjöru þar sem ferskvatn rennur í sjóinn. Þá þarf að passa upp á að hitinn sé ekki of mikill í sjónum, en það getur leitt til að þörungaeitrun komist í kræklinginn. Slíkt hefur aldrei mælst í apríl eða maí, en fólk þarf að huga nánar að slíkum málum frá júní yfir í ágúst.

Ekki var óalgengt að sjá fólk halda heim á leið í dag með fullar fötur af kræklingi, en ferðin stóð frá tíu til rúmlega eitt í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert