Kaffið og þjóðmenningin

AFP

Kaffið á Íslandi og þjóðmenning  er blaðamanni New Yorker ofarlega í huga þegar hann fjallar um nýlega ferð sína til Íslands. Eiginkona hans fann sinn heilaga kaleik hér á landi á kaffihúsinu Tíu dropar.

Adam Gopnik lýsir ferð sinni til Íslands fyrr í mánuðinum í New Yorker í fyrradag í grein sem nefnist „The Coffee of Civilization in Iceland“ en hann segir að ísland sé stórkostlegt lítið land en hann vissi talsvert um landið áður en hann kom hingað því eiginkona hans, Martha Parker, kvikmyndagerðarmaður, er af íslenskum ættum en bæði afi hennar og amma voru í hópi Vesturfara. Hann kom hingað til lands ásamt eiginkonu sinni til að taka þátt í Rithöfundabúðunum Iceland Writers Retreat.

Gopnik segist þekkja vel til íslenskrar menningar, enda tengdamóðir hans, Guðrún Parker, 95 ára, eins íslensk og hægt er að vera þó svo Vestur-Íslendingar séu kannski ekki alveg eins og þeir sem búi í heimalandinu. Það sé hins vegar vart hægt að skilja þar á milli.

„Þegar eiginkona mín, Martha,  segir nöfn afa síns og ömmu við ókunnuga Íslendinga þá kinka góðlátlega kolli og lyfta brúnum. Svona eins og einhverjir sem deila sameiginlegum uppruna frá smábæ í Wisconsin. Ef ég þekki þá ekki þá þekki ég einhvern kunnugan þeim.“

Reyndar voru hún og börn okkar kynnt alla ferðina sem Vestur-Íslendingar ekki kannski vegna þess að fjölskylda þeirra flutti frá Vestur-Íslandi heldur vegna þess að Íslendingar tala þannig um Kanada, segir hann enn fremur í greininni.

Í greininni fer hann víða, allt frá rótum eiginkonunnar í mikillar kaffidrykkju hennar, Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness þar sem kaffidrykkja skipar stóran sess í kraftaverk makrílsins.

Hann fjallar um endurreisn Íslands eftir fallið 2008 þegar bankarnir féllu hér á landi líkt og bankar út um allan heim. Því sannleikurinn sé sá að Íslendingar hafi gert heimskulega hluti í rekstri banka þá hafi sama verið uppi á teningnum í bankakerfinu á Manhattan. Stóri munurinn sé sá að Íslendingar hafi verið snöggir að skipta niður um gír og komust yfir áfallið fyrr. Íslendingar hafi jafnvel sent einhverja bankamenn í fangelsi.

Umfjöllun um Gopnik

Umfjöllun um tengdamóður hans, Guðrúnu Parker

Tengdamóðir hans, GuðrúnBjerring Parker, fékk árið 2006 næstæðsta stig kanadísku orðunnarTheOrder ofCanada. Guðrún var heiðruð fyrir framlag sitt til kanadískrar kvikmyndagerðar.TheOrder ofCanada er æðsta opinbera orðan og hefur síðan 1967 verið veitt árlega fólki sem hefur þótt hafa skarað fram úr á ýmsum sviðum, segir í grein sem Steinþór Guðbjartsson skrifaði í Morgunblaðið árið 2006.

„Þátttaka Guðrúnar í kanadískri kvikmyndagerð, fyrst og fremst gerð heimildamynda, spannar um 40 ár og hjá Kvikmyndastofnun Kanada (Canada's National Film Board, NFB) eru 55 myndir eyrnamerktar henni. Hún var önnur konan af íslenskum ættum til að vinna að kvikmyndagerð í Kanada, næst á eftir Margaret Ann Bjornson, sem m.a. vann að heimildasöfnun fyrir NFB vegna stuttmyndarinnar Iceland on the Prairies (1940). Guðrún segist alla tíð hafa látið sig íslensk málefni miklu varða og segist hafa áhyggjur af landinu vegna átroðnings stöðugt fleiri ferðamanna.

Foreldrar Guðrúnar, Sigtryggur Olason Bjerring og Sigríður Jónsdóttir, fæddust á Íslandi, Sigtryggur á Húsavík 1885 og Sigríður í Mývatnssveit 1886. Þriggja ára var Sigtryggur sendur til Winnipeg, þar sem Sigtryggur Ólafsson og kona hans tóku hann að sér og ólu upp. Foreldrar Sigríðar voru Jón Sigurðsson frá Gautlöndum og Guðrún Einarsdóttir og flutti hún með móður sinni til Kanada 1893.

Guðrún fæddist 1920 og eftir að hafa útskrifast frá Manitoba-háskóla 1940 hóf hún störf sem blaðamaður hjá Winnipeg Free Press. Fljótlega tók hún viðtal við John Grierson, breskan kvikmyndagerðarmann sem vann fyrir kanadísku stjórnina, og hann bauð henni að vera með í að þróa deild fyrir gerð heimildamynda hjá NFB. Hún tók boðinu og byrjaði hjá NFB í Ottawa 1942, bjó reyndar hjá fyrrnefndri Margaret Ann Bjornson til að byrja með, en Gordon Adamson, sem var líka af íslenskum ættum og eiginmaður Margaret, var einnig í kvikmyndagerðinni á þessum árum. Guðrún og eiginmaður hennar, Morten Parker, stofnuðu eigið kvikmyndagerðarfyrirtæki, Parker Film Associated Ltd., í Montreal og framleiddu fjölmargar myndir áður en þau hættu rekstrinum 1982,“ segir í grein Steinþórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert