Sony vildi stoppa Netflix á Íslandi

Höfuðstöðvar Netflix í Kaliforníu.
Höfuðstöðvar Netflix í Kaliforníu. AFP

Stjórnendur Sony Pictures reyndu að þrýsta á Netflix að loka á þjónustu sína á stöðum eins og Íslandi og Ástralíu, þar sem Netflix var ekki í boði löglega. Þetta kemur fram í skjali sem lekið var eftir innbrot til Sony á síðasta ári.

Í skjölunum sem Wikileaks birtir kemur fram að forsvarsmenn Netflix hafi aftur á móti ekki verið viljugir til að setja upp varnir sem gætu komið í veg fyrir slíka notkun. Rúv sagði frá málinu fyrr í dag.

Pósturinn var sendur árið 2013 frá Keith Le Goy, yfirmanni dreifingar hjá Sony Pictures Television, til annars starfsmanns Sony til að fræða hann um stöðu mála. 

Segir Le Goy að hann hafi óskað eftir því við forsvarsmenn Netflix að taka skref í þá átt að hindra ólöglega notkun á þjónustu fyrirtækisins, t.d. í löndum þar sem ekki hefur verið samið um dreifingu á efni með Netflix. Nefnir hann dæmi um lönd þar sem rétthafar hafi kvartað vegna aðgangs fólks að Netflix. Þar á meðal er Ísland, Suður-Afríka og Ástralía. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert