Um 450 veiðileyfum endurúthlutað

Hreindýr
Hreindýr Sigurður Bogi Sævarsson

Um 960 hreindýraveiðimenn greiddu veiðileyfi sín áður en greiðslufresturinn rann út kl. 21.00 að kvöldi miðvikudagsins 15. apríl. Úthlutað var 1.412 hreindýraveiðileyfum fyrir næsta veiðitímabil. Því koma um 450 hreindýraveiðileyfi til endurúthlutunar. Reiknað er með að þeim verði úthlutað í næstu viku.

Skil á greiðslum voru nokkuð betri en starfsmenn Umhverfisstofnunar áttu von á, að sögn Bjarna Pálssonar, teymisstjóra á Sviði sjálfbærni Umhverfisstofnunar. Í gær var ekki búið að taka saman hvernig greidd veiðileyfi dreifðust á veiðisvæðin sem eru níu talsins.

Breytt greiðslufyrirkomulag

Þetta var í fyrsta skipti sem greiða þurfti hreindýraveiðileyfin í einu lagi. Greiða þurfti 80.000 kr. fyrir veiðileyfi á kú og 135.000 kr. fyrir tarf. Eldra fyrirkomulag með staðfestingargreiðslu og síðan fullnaðargreiðslu hefur verið lagt niður. Talsverð brögð voru að því áður að veiðimenn greiddu staðfestingargjaldið en ekki fullnaðargreiðsluna. Því komu veiðileyfi til endurúthlutunar þegar stutt var til veiðitímans og olli það jafnvel erfiðleikum við að koma leyfunum út.

Í vetur bárust 3.635 umsóknir um hreindýraveiðileyfi og var dregið úr þeim 21. febrúar síðastliðinn. Alls höfðu 98 veiðimenn áunnið sér rétt til forgangs vegna svonefndrar fimm skipta reglu þegar dregið var í vetur. Þeir nutu forgangs vegna þess að þeir höfðu ekki verið dregnir út fimm ár í röð. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert