Kínversk heimspeki og íslensk lambabein

Jiao ásamt verki sínu á útskriftarsýningunni.
Jiao ásamt verki sínu á útskriftarsýningunni. mbl.is/Eggert

„Kláraðu allt á disknum, bændurnir hafa lagt á sig mikið erfiði til að rækta ofan í þig matinn,“ var alltaf sagt við börn í Kína að sögn Jiao Jiano en hún sýnir útskriftarverkefni sitt úr alþjóðlegu MA námi í hönnun frá Listaháskóla Íslands á Gerðarsafni um helgina. Í hönnunarverki sínu vinnur hún með ólíka menningarheima, kínverska heimspeki og íslenskt hráefni og finnur því farveg í nýsköpun í hráefnisnýtingu.  Í Kína segist hún hafa lært að sóa aldrei mat og segir öll kínversk börn læra það mjög ung.  

„Ég tel þetta vera eina aðalástæðuna fyrir því að Kínverjar borða alltaf allt af skepnunni og hvers vegna kínverskir kokkar leggja svo mikið á sig til að þróa mat til að lokka fólk til að sætta sig við það,“segir Jiao.

Þessi reynsla úr kínverskri menningu og upplifun hennar af íslenskri matarmenningu var kveikjan að hönnunarverki sem verður til sýnis í Gerðarsafni á útskriftarsýningu MA nema í myndlist og hönnun frá Listaháskóla Íslands. Sýningin opnar um helgina og sýna þar átta hönnuðir og sex myndlistarmenn útskriftarverk sín. 

Beinaseyði í íláti úr beinamulningi

Í náminu fékk Jiao sérstakan áhuga á íslenskum dýrabeinum og nýtingu þeirra.

„Sem kínverskur hönnuður við nám á Íslandi tók ég strax eftir því hversu ólík íslensk og kínversk matarmenning er,“ segir Jiao. „Ég var mjög áhugasöm um að skoða þennan menningarmun betur og nýta mér minn bakgrunn til að leita nýrra leiða til að hanna eitthvað úr vannýttu hráefni. Ég var sérstaklega forvitin um hvað verður um bein af íslenskum búpeningi,“ segir hún en það kom henni á óvart hversu mikið af þeim var ekki nýtt.

„Bein eru oftast mulin í duft og notuð sem næring í plönturækt en með því að sjóða beinin fyrst er hægt að útbúa gæðaseyði sem nærir fólk og eftir eru hrein bein“ útskýrir Jiao en hún hefur gert tilraunir með beinamulning sem visthverft efni í hönnun. Í hönnunarferlinu sauð hún lambabein og vann úr þeim beinamulning til að steypa umbúðir og ílát. „Ég sé gríðarleg tækifæri í hringrásarkerfi lífrænnar næringar með hönnun sem ég nota til að samþætta mína eigin persónulegu menningarupplifun við raunverulegar aðstæður í samtímanum“.

Efniviðurinn er úrgangur frá íslenskum matvælaiðnaði en með því að þróa leiðir í hönnun með þetta vannýtta hráefni langar Jiao að vekja upp spurningar um afleiðingar neysluhyggjunnar og jafnvel veita fólki í kjötiðnaði innblástur til að huga að því hvort ekki sé hægt að rannsaka leiðir til að nýta dýraafurðir betur til að ekkert fari til spillis. „Ég hef trú á því að þankagangur af þessu tagi nái að knýja fram allskonar hagnýtar hugmyndir“. 

Íslensk náttúra og kinversk heimspeki

Listræn nálgun Jiao á hönnun sína kemur úr kínverskri heimspeki sem kallast Samsara og merkir samhljómur náttúru og manns. „Með því að búa til ílát fyrir beinaseyði sem fengið er í gegnum eitt og sama ferlið myndast heild sem vísar í hringrásina, samsara, alls efnis í náttúrunni,“ útskýrir hún.

Jiao Jiano er frá Ningxiang í suðurhluta Kína. Þar búa um þrettán milljónir sem að hennar sögn þykir fámennt í Kína. Þegar Jiao var 15 ára hóf hún nám í listaskóla í Peking. Eftir útskrift komst hún inn í einn virtasta Listaháskóla Kína Central Academy of Fine Art for Visual Communication Design. Þaðan útskrifaðist hún með BA gráðu í grafískri hönnun. 

Áhugi Jiao á Íslandi vaknaði þegar hún var að vinna á hönnunarstofu í Bejing. „Þetta voru langir og stífir vinnudagar og starfið var ekki það sem ég hafði séð sjálfa mig í sem hönnuð. Ég fór því að skoða möguleikann á námi erlendis þar sem mig langaði að prófa eitthvað nýtt og helst gjörólíkt því sem ég var vön,“ segir hún. „Á þessum tíma var Ísland eitthvað undraland í mínum huga. Það var langt í burtu og hlaut því að vera eitthvað allt öðruvísi. Með þetta í huga bókaði ég flugið.“

Aðspurð segist hún ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. „Ísland er notalegt og ég kann að meta hversu góðu sambandi fólk er almennt í við náttúruna. Mér finnst fólk hérna hugmyndaríkt og almennilegt.“   Námið í Listaháskóla Íslands segir hún hafa mótað sig á jákvæðan hátt og fengið hana til að hugsa á nýjan hátt um samband fólks við umhverfi sitt og hvaða áhrif það getur haft. 

Jiao hefur hug á að dvelja áfram á Íslandi og langar til að halda áfram að vinna að hönnun hér. Hún leitar samstarfsaðila til að þróa áfram vinnu með dýrabeinin.

Útskriftarsýning MA nema í myndlist og hönnun frá Listaháskóla Íslands opnar Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands. Sýningin er í Gerðarsafni Kópavogi og stendur frá 18. apríl til 10. maí. Hún er öllum opin og ókeypis er inn. 

Skissan útskýrir hvernig nýta má afurðina í skál og seyði.
Skissan útskýrir hvernig nýta má afurðina í skál og seyði. mbl.is/Eggert
Jiao segist kunna að meta tengsl almennings við íslenska náttúru.
Jiao segist kunna að meta tengsl almennings við íslenska náttúru. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert