Beita sér fyrir tveggja milljarða hækkun á samkeppnissjóðum

mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, gerði í dag grein fyrir stefnu og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs á þingi í dag í svari við fyrirspurn Valgerðar Bjarnadóttur. Segir Sigmundur að breytingar séu að verða á málaflokknum í kjölfar aukins framlags ríkissjóðs.

Ríkissjóður samþykkti á síðasta ári 2,8 milljarða aukafjárfestingu til vísinda og nýsköpunar. Er hækkun um 800 milljónir í samkeppnissjóði komin til framkvæmda og á næsta ári mun ríkisstjórnin beita sér fyrir tveggja milljarða hækkun til viðbótar, í samræmi við aðgerðaáætlun ráðsins.

Hluti áætlunarinnar snýr að fjármögnun doktorsnáms. Er það markmið ráðsins að árið 2016 verði 200 námsnemastöður að fullu fjármagnaðar úr innlendum samkeppnissjóðum árlega.

Úthlutun á þessu ári fjármagnar aukalega að fullu 41 stöðu doktorsnema til þriggja ára. Segir í svari ráðherrans að því ætti fátt að koma í veg fyrir að markmiðið um 200 doktorsnemastöður náist á næsta ári.

Vísinda- og tækniráð gefur út stöðuskýrslu þar sem fram kemur hvernig eftirfylgni áætlunarinnar er. Segir Sigmundur að það komi til greina að gefa Alþingi reglulega skýrslu um stöðu aðgerðaáætlunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert