Ekkert miðar hjá hjúkrunarfræðingum

Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala.
Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala. mbl.is/Golli

Ólafur Guðbjörn Skúlason, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, segir lítið hafa þokast í samkomulagsátt á fundi með samninganefnd ríkisins í dag. Fundurinn stóð í hálfa aðra klukkustund.

Næsti fundur í deilunni er boðaður mánudaginn 27. apríl. Samningar hjúkrunarfræðinga renna út fimmtudaginn 30. apríl. „Hjúkrunarfræðingar telja sig eiga rétt á leiðréttingu á launum. Það er hugur í mönnum. Fólk er tilbúið að gera það sem þarf til að ná fram leiðréttingu á kjörum,“ segir Ólafur Guðbjörn og bendir aðspurður á að félagsmenn hafi greitt í verkfallssjóð í nokkur ár. Þeir séu því vel búnir undir verkfall.

Um 4.100 félagsmenn eru í Félagi hjúkrunarfræðinga og eru þar af 2.900 starfandi. Af þeim eru um 2.300 hjá ríkinu en um 600 hjá sveitarfélögum og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert