Ekta vorhret á leiðinni

Það styttist í sumardaginn fyrsta en veðurguðirnir virðast ekki ætla …
Það styttist í sumardaginn fyrsta en veðurguðirnir virðast ekki ætla að virða dagatalið þetta árið. mbl.is/Kristinn

Vaxandi norðanátt með frosti og éljum er það sem veðurguðirnir bjóða landsmönnum upp á til að fagna fyrsta degi sumars á fimmtudaginn. Um helgina tekur svo við meira frost sem gæti náð 7-10 stigum norðanlands. 

Veðurvefur mbl.is

Þau hlýindi sem hafa verið á landinu síðustu daga, sérstaklega norðaustan- og austanlands, voru bókstaflega skammgóður vermir því byrja tekur að kólna seinni partinn í dag, fyrst vestanlands, að sögn Haralds Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofunni. Á sumardaginn fyrsta verður vaxandi norðanátt á landinu með éljum og vægu frosti víða. Sunnanlands ætti þó að vera þurrt að mestu og hitinn á bilinu 0-5°C.

„Svona eru vorin bara á Íslandi. Það koma hret og vorið er ekkert alltaf komið til að vera. Ég man eftir mjög fáum vorum þar sem ekki hefur verið eitthvað hret en þetta er svona frekar í harðari kantinum sýnist manni. Þetta er bara ekta vorhret,“ segir hann.

Ekki tekur betra við um helgina. Þá verður stíf norðanátt og væntanlega frost um allt land. Haraldur segir að kaldast verði á föstudag, laugardag og sunnudag. Spáin sem Veðurstofan gerði í morgun gildi fram yfir helgina en engin hlýindi eru heldur að sjá fyrst eftir hana.

„Við verðum bara að harka þetta hret af okkur,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert