Gleymdist vegna misskilnings

Hundurinn gleymdist fyrir utan Melabúðina í gærkvöldi.
Hundurinn gleymdist fyrir utan Melabúðina í gærkvöldi. ljósmynd/Pétur Alan Gudmundsson

Chihuahua hundur sem gleymdist fyrir utan Melabúðina í gærkvöldi er nú kominn heim til sín. Pét­ur Alan Guðmunds­son, versl­un­ar­stjóri Mela­búðar­inn­ar, segir misskilning hafa valdið því að eigendurnir tóku hann ekki með sér þegar þeir yfirgáfu verslunina.

Pétur fékk ábendingu um það klukkan átta í gærkvöldi að hundurinn væri búinn að vera bundinn fyrir utan verslunina í eina til tvær klukkustundir. Hann tók hundinn því inn á skrifstofu Melabúðarinnar, og deildi svo mynd af honum á Face­book í von um að finna eigendurna. Hann fékk svo loks símtal frá þeim um klukkan ellefu.

„Þau höfðu komið saman að versla og voru að fara á tónleika eða í leikhús og börnin áttu að taka hundinn heim. Krakkarnir héldu hins vegar að foreldrarnir ætluðu að taka hundinn, og þegar þau komu öll heim seinna um kvöldið var enginn hundur,“ segir Pétur.

Þá segir hann krakkana hafa komið og sótt hundinn um leið og þau komust að því hvað hafði gerst, og miklir gleðifundir hafi átt sér stað. 

Pétur segir hundinn þó hafa verið í góðu yfirlæti þann tíma sem hann var á skrifstofunni, en þeir félagarnir fóru svo í bíltúr og létu sér ekki leiðast á meðan þeir biðu eftir símtalinu. „Hann var ægilega ljúfur og góður,“ segir Pétur.

Þá segist hann þakka öllum þeim sem deildu myndinni, enda hafi það skilað sér á endanum til eigendanna. „Sumir sem sáu myndina veltu því samt greinilega fyrir sér hvers vegna fólk skildi hundinn eftir, en það var bara misskilningur og honum var ekkert kalt. Hann var bara mjög kátur og skemmtilegur og ekkert hræddur þegar ég sóttu hann.“

Frétt mbl.is: Gleymdist fyrir utan Melabúðina

Þeir félagar fóru í bíltúr í gærkvöldi.
Þeir félagar fóru í bíltúr í gærkvöldi. ljósmynd/Pétur Alan Gudmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert