Grunnstoðir ítrekað í gíslingu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Umhugsunarefni er hvernig verkfallsvopninu hefur verið beitt með nýjum hætti í kjarabaráttu undanfarið og grundvallarstoðir heilbrigðiskerfisins ítrekað teknar í gíslingu, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu aðgerðaleysi stjórnvalda í kjaramálum á þingi í dag.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, spurðu fjármálaráðherra út í stöðu á vinnumarkaði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Bæði lýsti þau áhyggjum af stöðunni og verkföllum í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma hafi hins vegar ekkert heyrst frá ríkisstjórninni, jafnvel þótt ríkið sé aðili að viðræðunum í sumum tilfellum.

Bjarni svaraði því til að engar kröfugerðir hefðu beinst að ríkinu og ekki væri beðið eftir neinu af þess hálfu. Væri gengið að kröfum sem settar hefðu verið fram þá myndi það þýða 50% hækkun launa í einhverjum tilvikum og 100% í öðrum. Það væri ekki grundvöllur að næsta fundarboði í kjaradeilum, jafnvel þótt menn legðust í verkfall þar sem landsmenn fyndu mest fyrir því.

Telji jöfnuð orðinn of mikinn

Það væri tvennt sem allir ættu að vera hugsi yfir. Í fyrsta lagi yfir þeirri breytingu sem orðið hefði á beitingu verkfallsréttar í landinu sem hefði leitt til þess að tiltölulega fámennir hópar gætu nú farið þá leið að fara í verkfall þar sem mest er fundið fyrir því. Vísaði Bjarni þar til niðurstöðu félagsdóms fyrir stuttu.

„Nú er það orðið þannig að samkvæmt þessari nýjustu niðurstöðu geta menn jafnvel farið í verkfall á einstökum stofnunum. Það er mikið umhugsunarefni hvernig við höfum lent í því ítrekað á undanförnum mánuðum að grundvallarstoðir í okkar heilbrigðiskerfi eru teknar nánast í gíslingu til þess að ná fram kröfum í kjaraviðræðum. Með þessu hefur hinu hefðbundna verkfallsvopni verið beitt með nýjum hætti. Þeim hætti að sú ákvörðun að fara í verkfall bitnar ekki jafnt á báðum aðilum eins hefur verið fram til þessa,“ sagði Bjarni.

Í öðru lagi spurði hann um hvað væri í raun deilt á vinnumarkaði.

„Er kjarni deilunnar sá að það skorti á að gera betur við þá sem eru lægst launaðir eða er það til vitnis um einhver önnur sjónarmið þegar stór félög á borð við BHM vilja meina að menntun sé ekki metin nægilega til launa og ganga nánast svo langt að segja að jöfnuður hafi aukist um of. Svo mjög að það borgi sig ekki lengur, að það skili sér ekki í launaumslagið, að sækja góða menntun, til dæmis með háskólagöngu,“ sagði fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert