„Treysti mínum yfirmönnum“

Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrir miðri mynd, í héraðsdómi Reykjavíkur í …
Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrir miðri mynd, í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég trúði og treysti mínum yfirmönnum. Ég trúði og treysti á kerfið. Og verði ég fundinn sekur finnst mér eins og kerfið hafi brugðist mér,“ sagði Pétur Kristinn Guðmarsson við aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sem hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Pétur er á meðal þeirra sem ákærðir eru í málinu og lýsti hann sig saklausan af ákærunni. „Ég er saklaus af þessari ákæru,“ sagði hann í upphafi yfirlýsingar sem hann flutti fyrir dómnum.

Pétur er ákærður fyrir markaðsmisnotkun sem starfamaður Kaupþings banka í aðdraganda bankahrunsins. Meðal ákærðra í málinu eru einnig Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Ingólfur Helgason fyrrverandi yfirmenn bankans. Um er að ræða eitthvert stærsta mál sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í og mun málsmeðferðin standa til 22. maí.

Frétt mbl.is: Mál án fordæma

Pétur sagðist hafa komið til starfa hjá Kaupþingi fljótlega eftir að námi lauk og að hann hafi lært af sínum samstarfsmönnum. Þá hafi hann fylgt þeim fyrirmælum sem hann hafi fengið frá sínum yfirmönnum. Komið hafi fyrir að hann hafi ekki verið sammála þeim fyrirmælum en hann hafi treyst því að þau væru engu að síður í fullu samræmi við lög og reglur.

„Ég var að fylgja fyrirmælum og stefnu minna yfirmanna,“ sagði Pétur fyrir dómi. Sagðist hann ennfremur hafa litið upp til yfirmanna sinna enda hefði verið um að ræða reynslumikla einstaklinga sem hefðu verið mjög stórir aðilar á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma. Tók hann ítrekað fram í yfirlýsingu sinni að hann hefði borið mikið traust til yfirmanna sinna.

Pétur nefndi að eftirlit með viðskiptum hans hafi verið háð víðtæku eftirliti. Bæði innan bankans og af hálfu opinberra eftirlitsaðila. Yfirmaður hans hafi verið í samskiptum við regluvörð varðandi viðskiptin þannig að hann hafi ekki talið sig hafa ástæðu til að ætla annað en að viðskiptin væru lögum samkvæmt.

Pétur gagnrýndi ennfremur ákæru sérstaks saksóknara og sagði framsetningu embættisins á gögnum í málinu vera hlutdræga. Tilgangur þess væri að hans mati að láta sig líta tortryggilega út. Þá væri snúið út úr gögnum. Hann sagði viðskiptin sem hann hafi séð um hafi verið í samræmi við viðteknar venjur og í heildina litið verið hagnaður af viðskiptunum á því tímabili sem um væri að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert