Vatnsslagur á sumardaginn fyrsta

Þátttakendur fá lánaðan regnfatnað, án efa frá 66°Norður.
Þátttakendur fá lánaðan regnfatnað, án efa frá 66°Norður. Ljósmynd/66°Norður

Klukkan 12 á hádegi hefst skráning í vatnsslag 66°Norður, sem fram fer á Lækjartorgi á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta. Viðburðurinn hefur fengið hið skemmtilega heiti H2015.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að fjórir slagir muni fara fram á korters fresti. Fyrsti slagurinn hefjist kl. 14. Í hverjum slag mætast tvö tíu manna lið, en þáttakendum verður séð fyrir vatnsbyssum, vatnsfötum og vatnsblöðrum.

Þáttakendur fá að auki lánuð regnföt, en til þess er mælst að þeir mæti í stígvélum eða öðrum vatnsheldum skófatnaði. Það lið sigrar sem fyrr klárar vatnsbirgðir sínar. Aldurstakmark er 16 ár.

„Við eigum eflaust öll góðar minningar tengdar góðviðrisdögum þegar maður lét renna í vatnsblöðru eða vatnsbyssu og fór út í sakleysislegt vatnsstríð með vinum sínum. Mig hefur lengi dreymt um að taka þetta á næsta stig og hóa tíu tuttugu manns saman en það varð aldrei af því. Í einhverjum skilningi er ég því loksins að láta æskudrauminn rætast," segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri hjá 66°Norður. „Ef vel gengur þá vonumst við til að gera þetta árlega héðan í frá. H2016, H2017 og H2018 eru klárlega á langtímaplaninu,“ er haft eftir Fannari í tilkynningunni frá 66°Norður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert