Vildi ekki í vitnastúkuna

Verjendur ákærðu og Pétur Kristinn við upphaf málsins í dag.
Verjendur ákærðu og Pétur Kristinn við upphaf málsins í dag.

Ákæruvaldið og verjendur ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings hófu strax að deila við upphaf málsins í dag. Verjandi ákærða, Péturs Kristins Guðmarssonar óskaði eftir að hann færi ekki í vitnastúkuna heldur sæti við borð verjanda. Þessu var Björn Þorvaldsson, saksóknari, ekki sammála og vildi fá Pétur í vitnastúkuna og sagði óeðlilegt að yfirheyra mann yfir allan réttarsalinn.

Dómarinn taldi beiðni verjanda þó ekki óeðlilega og sagði fordæmi fyrir þessu fyrirkomulagi. Björn sagðist ekki muna eftir slíku fyrirkomulagi en dómari var því ósammála. “Dómari hefur nú setið hér frá árinu 1992 og þykist vita þetta betur,” sagði hann.

Fékk að halda tölvunni

Saksóknari benti þá á að ákærði væri með opna tölvu fyrir framan sig og óskaði eftir að hann léti hana frá sér. Hófust þó nokkrar deilur milli ákæruvaldsins og verjenda. Sagði verjandi Péturs að hann væri með ýmsar upplýsingar um málið til að styðjast við. Björn sagði þetta óeðlilegt þar sem hann gæti verið með gögn málsins, eins og lögregluskýrslur sem ekki væri eðlilegt að vitni læsi upp úr.

Dómari spurði þá verjanda Péturs hvort hann væri með slík gögn og neitaði hann því. Dómari sagðist þá treysta verjanda til að svo væri og fékk Pétur að halda tölvunni. Saksóknari maldaði í móinn með því að benda á að ef um líkamsárásarmál væri að ræða væri óeðlilegt að ákærði fengi að lesa upp úr lögregluskýrslu þegar hann væri yfirheyrður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert