60% af blóðrannsóknum er frestað

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Um 60% af blóðrannsóknum er frestað á hverjum degi. Síðan var til að mynda 240 myndgreiningarrannsóknum frestað í gær,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðissviðs Landspítsalans um frestanir sökum verkfallsaðgerða Banda­lags há­skóla­manna sem hófust í mánuðinum.

220 skurðaðgerðum frestað

„Það er ekki heldur farið í stórar aðgerðir sem þarfnast myndatöku, það er að segja aðgerðir sem eru fyrirfram planaðar. Þær frestast. Það eru líklega um 220 skurðaðgerðir sem búið er að fresta frá upphafi verkfalls. Hjartaþræðingum hefur einnig verið frestað þannig að þetta hefur mjög víðtæk áhrif eins og gefur að skilja,“ segir Guðlaug Rakel. Hún kveður jafnframt að ekki sé hægt að segja til um það hvar vandinn sé mestur en hann sé vissulega mjög víða.

„Þetta eru náttúrufræðingar, geislafræðingar, lífeindafræðingar og ljósmæður. Áhrifin eru því mjög víðtæk. Verkfallsaðgerðirnar hægja á öllu flæðinu hjá okkur, útskriftir verða hægari og hlutirnir ganga hægar eðli málsins samkvæmt. Við vonumst bara til þess að það fari að sjá til sólar í þessum viðræðum,“ segir hún. Guðlaug Rakel segir að ekki hafa komið upp nein alvarleg tilvik sem varða líf og heilsu sjúklinga vegna verkfallsaðgerðanna.

„Við höfum ekki fengið atvik sem tengjast verkafallinu beint. Auðvitað er starfsemin hægari en ég er ekki viss um að það hafi haft nein bein áhrif á afdrif sjúklinga. Það hefur þó að sjálfsögðu mikil áhrif á sjúklinga ef það er verið að fresta aðgerðum sem er búið að ákveða,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert