Fengu ekki að nota herminn

Frá dómsal.
Frá dómsal.

Verjendur þeirra Péturs Kristins Guðmarssonar og Ingólfs Helgasonar, ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, gagnrýna að ákærðu fái ekki að nýta Kauphallarhermi sérstaks saksóknara þegar spurningum saksóknarans er svarað. Hefur saksóknari síðustu tvo daga yfirheyrt fyrsta vitni málsins sem hefur reglulega svarað spurningum á þann veg að hann myndi vilja skýra málið nánar með því að spila það tímabil sem spurt er um í herminum.

Ákæruvaldið hefur ítrekað sagt að slíkt myndi taka of langan tíma og að það væri ákæruvaldið sem væri að spyrja út í ákveðin atriði sem væru lögð fram, ekki út í herminn sjálfan.

Verjendur Péturs og Ingólfs gagnrýndu þetta og sögðu ákæruvaldið neita ákærða að nota gögn úr herminum, sem væru viðurkennd gögn málsins, til að svara fyrir sig. Eftir talsverðar deilur milli verjendanna og saksóknara kvað dómari upp um að hann myndi ekki taka forræði málflytjenda af því hvernig hann myndi bera fram málið. Sagði hann að verjandi ákærða fengi tækifæri til að horfa til og nýta þessi gögn þegar hans tími væri að spyrja ákærða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert