Kerfið ekki fyrir kerfiskarla- og kerlingar

Frá blaðamannafundi ÖBÍ í morgun.
Frá blaðamannafundi ÖBÍ í morgun. mbl.is/Hjörtur

Stokka þarf upp kerfi stofnana sem sinna vinnu og velferð og sameina þær í eina stofnun, Vinnu- og velferðarstofnun (VVS) sem taki yfir þau verkefni sem Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun sinna í dag. Eins verði sett á laggirnar Miðstöð starfsgetu og endurhæfingar (MSE) sem sjái um starfsgetumat og endurhæfingu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu frá Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) sem kynnt var á blaðamannafundi í morgun. Hægt væri að mati bandalagsins að breyta stofnanakerfinu með þessum hætti á þremur árum. Skýrslan inniheldur tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess. Þannig verði stofnanafyrirkomulagið einfaldað frá því sem nú er. Ein stofnun sjái með öðrum orðum um mat á starfsgetu og önnur um greiðslur til þeirra sem á þeim þurfi að halda. Þannig verði framkvæmd mats og ákvarðana á grundvelli þess ekki á höndum sama aðila.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, flutti erindi á fundinum og vakti meðal annars athygli á að aðildarfélög bandalagsins væru 37 talsins og teldu 29 þúsund félaga eða 9% þjóðarinnar. „Því teljum við mikilvægt að stjórnvöld hlusti á þennan stóra hóp fólks, fatlað fólk, örorkulífeyrisþega og aðstandendur þeirra. Þetta er fólkið sem þekkir kerfið best og hvernig er að lifa í því. Kerfið skal vera byggt fyrir fólkið en ekki kerfiskarlana og kerfiskerlingarnar sem stýra því.“

Kerfið hvetji til atvinnuþátttöku

Lögð er meðal annars áhersla á mikilvægi þess í skýrslunni að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fullgildur og lögfestur hér á landi. Ennfremur verði sett lög sem banni mismunun á vinnumarkaði og að séð verði til þess að lögin tryggi viðeigandi aðlögun með skýrum hætti. Þá verði lögð áhersla í kerfinu á hvata til atvinnuþátttöku í kerfinu og stuðlað að fjölgun hlutastarfa og starfa með sveigjanlegan vinnutíma.

Einnig er lögð áhersla á það að réttur atvinnurekenda til endurgreiðslu sértæks kostnaðar sem til falli við ráðningar fólks með skerta starfsgetu verði tryggður, réttur einstaklinga til endurmats verði tryggður í kerfinu og að samhliða innleiðingu starfsgetumats verði dregið mjög úr tekjuskerðingum og öllum lífeyrisþegum tryggð viðunandi framfærsla. Þá verði virk þátttaka vinnuveitenda í að skapa fólki með skerta starfsgetu „raunveruleg tækifæri til atvinnuþáttöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert