Skortur eins hefur áhrif á alla

SAMFOK segir að erfitt sé að bæta upp glataðan tíma …
SAMFOK segir að erfitt sé að bæta upp glataðan tíma í æsku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík (SAMFOK) skora á sveitarfélög og ríki að upfylla ákvæði laga og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um stuðning og þjónustu við börn í vanda. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að nauðsynlegt sé að uppræta biðlista og grípa fyrr inn í mál auk þess sem auka þurfi sérfræði þjónustu í skólum og fjölga meðferðarúrræðum.

„Skólastefnan „Skóli án aðgreiningar“ er metnaðarfull stefna. Til þess að sú skólastefna gangi upp þarf hins vegar að tryggja stuðning og þjónustu við öll börn. Í dag er staðan þannig að þjónusta og stuðningur við börn með hegðunarvanda, kvíða, tilfinningavanda, geðræn vandamál, málhömlun, vímuefnavanda og þroskahamlanir er engan veginn viðunandi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

„Biðlistinn á BUGL, Þroska- og hegðunarstöð og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins er meira en ár, algengt er að biðlisti hjá talmeinafræðingum sé 12-18 mánuðir og dæmi eru um að börn í ákveðnum hverfum Reykjavíkurborgar, svo dæmi sé tekið þurfi að bíða í 2 ár eða meira eftir greiningum og þjónustu. Á meðan beðið er eftir þjónustunni vex vandinn og verður í sumum tilfellum óyfirstíganlegur fyrir bæði skólann og heimilin.“

Í yfirlýsingunni segir að hvert og eitt barn sé dýrmætt og eigi aðeins eina æsku, þann tíma sem barn sé án greiningar og/eða þjónustu sé erfitt að bæta upp síðar.

Ljóst er að skortur á þjónustu við eitt barn getur gert skólagöngu þess óbærilega og haft veruleg áhrif á skólagöngu barna í sömu bekkjardeild eða skóla.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert