Spítalanum sóað í hjúkrunarrými

Frá bráðamóttöku Landspítalans. Mikið álag hefur verið á henni enda …
Frá bráðamóttöku Landspítalans. Mikið álag hefur verið á henni enda er hún oft eina úrræðið sem fólki stendur til boða. mbl.is/Golli

Það er sóun að Landspítalinn sinni hjúkrunarheimilishlutverki fyrir allt að hundrað manns að mati Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Á opnum fundi um flæði sjúklinga á spítalanum kom fram að meðallegutími sjúklinga væri að lengjast og að styrkja þyrfti heilsugæslu og heimahjúkrun og bæta við hjúkrunarrýmum. 

Stjórnendur nokkurra deilda og sviða spítalans ræddu um áskoranir sem tengjast flæði sjúklinga á opnum fundi í dag. Dagbjört Þyrí Þorvarðardóttir, deildarstjóri flæðisdeildar Landspítalans, sagði að sjúkrahúsið hefði lengi glímt við erfiðan flæðisvanda en þó sérstaklega undanfarin tvö ár. Nýting á rýmum spítalans væri komin upp í allt að 105% og bið á bráðamóttöku væri orðin allt of löng. Í vetur hefðu sjúklingar jafnvel þurft að bíða í fleiri sólarhringa eftir að vera lagðir inn á legudeildir.

Ástæðan er meðal annars stækkandi hópur aldraðs fólks sem ætti heima á hjúkrunarheimilum sem kemst ekki þangað vegna skorts á rýmum. Þá sé þjónusta heilsugæslunnar og heimahjúkrunar ekki fullnægjandi til að gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér. Auk þess hafi legurýmum fækkað um því sem jafngildir átta legudeildum frá 2007. Meðallegutími sjúklinga á Landspítalanum nú sé um 8,3 dagar.

Skortur á heimahjúkrun getur hindrað útskriftir

Það kom fram í máli Dagbjartar og Hlífar Steingrímsdóttur, framkvæmdastjóra lyflækningasviðs, að þar sem heilsugæslan hefði ekki burði til að sinna grunnþjónustu þá væri  bráðaþjónustan oft eina úrræðið þegar aldrað fólk sem býr í heimahúsi veiktist. Þetta leiddi til yfirfullra bráðalegudeilda og mikils álags á bráðamóttöku.

Heimahjúkrun, sem í sumum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og vissum svæðum í Reykjavík er ekki boðið upp á um helgar, hafi einnig reynst þröskuldur fyrir því að fólk sé útskrifað af spítalanum.

Hlíf sagði að ekki yrði hjá því komist að bæta við legurýmum þar sem um tuttugu aldraðir sjúklingar bíði að meðaltali eftir endurhæfingu eða hjúkrunarheimili á bráðalegudeildum. Fólkið þurfi að bíða á bráðadeildum í fleiri vikur eftir úrræðum og fyrir vikið lengist meðallegutíminn á sjúkrahúsinu.

Bráðamóttakan að reka heila legudeild ofan á allt annað

Frummælendur á fundinum voru sammála um að ýmislegt væri hægt að gera innanhúss á sjúkrahúsinu til að bæta flæði sjúklinga. Hægt væri að bæta verkferla og útskriftaráætlanir og ná að útskrifa sjúklinga í jöfnum mæli um helgar og aðra daga vikunnar.

Páll forstjóri sagðist vonast til að hægt væri að gera sem mest til að auka skilvirknina innanhúss. Hins vegar hefði legið fyrir allt frá því um 1960 að þjóðin ætti eftir að eldast og að sprenging yrði í hjúkrunarþörf upp úr 2015. Ekki hefði verið fundin langtímalausn á búsetuvanda aldraðs fólks sem gæti ekki lengur búið eitt. Ekki gengi að Landspítalinn væri sá eini sem fyndi fyrir þeim vanda.

Hlutverk Landspítalans, sagði Páll, að væri annars vegar að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir allt landið og hins vegar að vera héraðssjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Allt sem truflar hlutverk hans er sóun. Það er sóun ef Landspítalinn á að sinna hjúkrunarheimilishlutverki fyrir allt að hundrað manns í plássum sem kosta um hundrað þúsund krónur á dag þegar Hrafnista getur gert það fyrir um tuttugu þúsund á dag,“ sagði Páll.

Flæði sjúklinga væri mikilvægasta forgangsmál sjúkrahússins og með því að ná valdi á því væri einnig hægt að ná valdi á rekstri þess. Til dæmis nefndi hann að vikum saman hefðu 20-25 manns legið á göngum bráðamóttökunnar og beðið eftir innlögn. Þannig væri bráðamóttakan, sem hefði ærinn starfa fyrir, að reka heila legudeild til viðbótar. Hún hefði enda farið 15 milljónir króna fram yfir fjárhagsáætlun sína í sérhverjum þriggja fyrstu mánaða ársins.

Samhljómur var á meðal frummælenda á fundinum þegar kom að lausnum. Fjölga þyrfti legurýmum á Landspítalanum, fjölga hjúkrunarrýmum utan hans, efla heilsugæsluna og heimahjúkrun til þess að aldrað fólk gæti búið heima hjá sér eins lengi og mögulegt væri.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert