Tappað af í Vaglaskógi

Birkisafinn er farinn að renna í Vaglaskógi.
Birkisafinn er farinn að renna í Vaglaskógi. Ljósmynd/Skógrækt ríkisins

Í síðustu viku var settur aftöppunarbúnaður fyrir birkisafa á 41 tré í Vaglaskógi og gefa trén nú þegar tugi lítra á hverjum degi. Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef Skógræktar ríkisins. Benjamín Örn Davíðsson, aðstoðarskógarvörður, tæmdi úr fötunum í gær og kom góssið þá í ljós.

Samkvæmt vefnum var safataka lítillega reynd í fyrravor í Vaglaskógi og lofaði góðu. Verkefnið er unnið í samvinnu við fyrirtækið Foss Distillery sem framleiðir nú þegar líkjör og snafs úr birkisafa og hyggur á framleiðslu birkisíróps, bragðefna og fleiri vara á komandi árum. Nóg er af stórum og heilbrigðum birkitrjám í Vaglaskógi til að taka safa úr en gæta verður þess að taka ekki úr sama trénu ár eftir ár heldur leyfa þeim að jafna sig á milli.

Í gær söfnuðust tæplega 30 lítrar úr trjánum á Vöglum. Benjamín telur að trén eigi að geta gefið talsvert meira í einu og hann vonast til að safastreymið aukist þegar trén springa betur út.

Nánar um fréttina á vef Skógræktar ríkisins, skogur.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert