Verkföll SGS hefjast í næstu viku

32% félagsmanna SGS starfa við ferðaþjónustu, ræstingar og fleira.
32% félagsmanna SGS starfa við ferðaþjónustu, ræstingar og fleira. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkfallsaðgerðir rúmlega 10 þúsund félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefjast í næstu viku. Félagsmenn SGS samþykktu aðgerðirnar með yfirgnæfandi meirihluta, eða 94,6%, í atkvæðagreiðslu sem staðið hafði í eina viku og lauk á miðnætti í gær.

Í tilkynningu á vef SGS segir að kjörsókn hafi verið 50,4% sem var umtalsvert meiri en væntingar verkalýðsfélaganna höfðu staðið til.

Verkfall félagsmanna SGS hefst því fimmtudaginn 30. apríl og stendur fyrst um sinn yfir í hálfan sólarhring, frá hádegi til miðnættis. Eftir það taka við regluleg sólarhringsverkföll þar til ótímabundið verkfall hefst 26. maí. Ljóst er að verkföllin munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt.

Kosið var í 16 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins um tvo aðalkjarasamninga.

Innan sex aðildarfélaga samþykktu allir félagsmenn verkfallsboðunina, þar á meðal Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur. 

Tímasetningar verkfallsaðgerðanna

30. apríl 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.
6. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).
7. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).
19. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).
20. maí 2015 Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).
26. maí 2015 Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

42% atkvæðisbærra félaga í SGS starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32% eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.). Aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert