Afhjúpa afmælismynd Hubble

Hubble-sjónaukinn í samanburði við íslenskan strætisvagn.
Hubble-sjónaukinn í samanburði við íslenskan strætisvagn. Stjörnufræðivefurinn/ Hermann Hafsteinsson/ESA/Hubble

Vísindasmiðja Háskóla Íslands er einn þeirra staða í Evrópu sem hefur fengið afmælismynd í tilefni af 25 ára afmæli Hubble-geimsjónaukans frá evrópsku geimstofnuninni ESA. Myndin verður afhjúpuð í húsakynnum smiðjunnar á morgun en fjölmargt verður í boði fyrir alla fjölskylduna í tilefni afmælisins.

Haldið er upp á aldarfjórðungsafmæli sjónaukans um allan heim á morgun en honum var skotið á loft 24. apríl árið 1990 með geimferjunni Discovery. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur Hubble-geimsjónaukinn breytt skilningi manna á alheiminum og fært jarðarbúum stórbrotnar myndir af fyrirbærum hans.

Í tilefni af afmælinu dreifði ESA 25 ára afmælismynd Hubble víðs vegar um Evrópu, þar á meðal til Vísindasmiðju HÍ sem staðsett er í Háskólabíói. 

Opið verður í smiðjunni frá klukkan 12:30-15:00 á morgun, sumardaginn fyrsta, af þessu tilefni. Klukkan 13:00 mun Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðimiðlari og verkefnisstjóri við Háskóla Íslands, halda stutt erindi um Hubble-sjónaukann áður en stór útgáfa af afmælismynd úr sjónaukanum verður afhjúpuð í smiðjunni.

Þar fyrir utan verða í boði ýmsar sýnitilraunir, þrautir, syngjandi skál, sérkennilegir speglar, leisigeislar og ósýnilegt ljós. Myndin úr Hubble verður svo til sýnis í smiðjunni í framtíðinni og verður þeim fjölmörgu grunnskólanemum, sem sækja smiðjuna ár hvert, bæði til fróðleiks og yndisauka. Ef veður leyfir verður boðið upp á sólskoðun utandyra.

Vísindasmiðjan er öllum opin og aðgangur ókeypis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert