Klækjarefir skjóta sig í fótinn með þvi að útiloka fundarsókn

Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Tímabil árlegra aðalfunda húsfélaga fer brátt að renna sitt skeið en lögum samkvæmt skal aðalfundur haldinn fyrir lok aprílmánaðar sérhvert ár og eru þeir því jafnan haldnir í mars og apríl. Lögmæti húsfunda og lögmæti ákvarðanatöku húsfélaga er algengt þrætuepli í íslenskum fjölbýlishúsum.

Kemur þetta glögglega í ljós við skoðun úrskurða hjá kærunefnd húsamála.

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, tekur fram að eigendum íbúða í fjöleignarhúsum sé ekki skylt að sækja húsfundi á afbrigðilegum tímum og stöðum.

Klækjarefir skjóta sig í fótinn

„Slíkir fundir yrðu yfirleitt taldir ólöglegir og á ólögmætum fundi verða engar lögmætar ákvarðanir teknar og þá er verr af stað farið en heima setið,“ segir Sigurður.

„Klækjarefir og gráglettnir fundaboðendur geta skotið sig illa í fótinn með því að velja fundi afbrigðilegan stað og tíma, í þeim tilgangi að torvelda eða útiloka fundarsókn annarra meðlima eða þá sem grikkur í stríði innan hússins,“ segir Sigurður og bætir við að seint verði talið hverju fólk geti fundið upp á þegar erjur nágranna í fjölbýli eru annars vegar.

„Öll mannleg háttsemi sem getur verið eðlileg við einhverjar kringumstæður getur breyst í ónæði við aðrar kringumstæður. Þá er andskotinn laus,“ segir Sigurður og bendir á vísu sænska skáldsins Nils Farlin, í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, máli sínu til stuðnings.

Á loftinu er kæti og kliður,

þótt klukkan sé þegar tólf.

Og þá lýstur þanka niður,

að þak mitt er annars gólf!

Flestir fundir löglega boðaðir

Auður Björg Jónsdóttir, formaður kærunefndar húsamála, segir í samtali við Morgunblaðið að oft sé deiluefni hversu mikinn hluta atkvæðabærra félaga í húsfélagi þurfi til að taka ákvarðanir.

„Þá er til dæmis deilt um hvort til þurfi meirihluta, aukinn meirihluta eða samþykki allra við tiltekna ákvörðun,“ segir Auður. „Einnig er algengt að deilt sé um hvort húsfundir séu löglega boðaðir og í rauninni allt á milli himins og jarðar tengt húsfundunum.“

Auður segir að í flestum tilvikum sé þó löglega boðað til fundar. „Ég held að það séu ekki margir úrskurðir þar sem talið hefur verið að ekki hafi verið réttilega boðað til fundar eða þá að sönnun hafi skort í þeim efnum,“ segir Auður en bendir á að eðli húsfélaganna fari hugsanlega eftir stærð þeirra.

Minni húsfélög geta skapað grundvöll fyrir meiri ágreining

„Oft finnst manni eins og meira sé um ágreining í minni húsfélögum og að auðveldara sé að færa lögin yfir á stærri eignirnar. Lögin henta kannski frekar fyrir þessar stóru blokkir en þegar um er að ræða þrí- eða tvíbýli, þá eiga reglurnar ekkert endilega alltaf við. Því er það vert athugunar, þegar ný lög verða einhvern tímann sett, hvort betur kunni að fara á því að gera greinarmun á stórum og litlum fjölbýlum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert