Sumri fagnað um allt land

Barnamenningarhátíð fer fram í Reykjavík, og fjöldi viðburða verða haldnir …
Barnamenningarhátíð fer fram í Reykjavík, og fjöldi viðburða verða haldnir í dag. ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Komu sumars er víða fagnað í dag og fjölmargir viðburðir eru haldnir um allt land. Uppákomur fyrir börn verða í fyrirrúmi, en í Reykjavík er Barnamenningarhátíð í fullum gangi með fjölda uppákoma og viðburða í allan dag.

Í Ævintýrahöllinni í Iðnó verður meðal annars verður boðið á leikhúsball og flugdrekasmiðju. Ratleikur verður í varðskipinu Óðni á Sjóminjasafninu, fljúgandi furðudýr í ráðhúsinu og listasmiðja í myndrænni sagnagerð hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Á Árbæjarsafni verða tónleikar, föndursmiðjar, kassabílar og fleira spennandi. Nánari upplýsingar um dagskránna má finna á vef Barnamenningarhátíðar, en frítt er inn á alla viðburði.

Þá hófst Víðavangshlaup ÍR í hundraðasta sinn klukkan tólf þar sem hlaupið verður um hjarta borgarinnar, og jafnframt fagna skátar komu sumarsins víða um landið.

Ókeypis aðgangur er að Safnahúsinu við Hverfisgötu í tilefni dagsins, en sl. laugardag var húsið enduropnað með sýningunni Sjónarhorn, veitingastofunni Kapers og nýrri Safnbúð. Þá verður einnig ókeypis aðgangur að Þjóðminjasafninu í dag, og sumarlegur ratleitur í boði allan daginn. Frá klukkan 14-16 verður svo listasmiðja á safninu og fleiri viðburðir sem finna má á vef safnsins.

Þá verður haldinn vatnsslagur á Lækjartorgi klukkan tvö í dag, en nokkr­ir slag­ir fara fram þar sem tíu manna fylk­ing­ar með vatns­byss­ur, vatns­blöðrur og vatns­föt­ur stríða.

Viðburðaríkur fjölskyldudagur verður haldinn í Gróttu í dag. Meðal viðburða er rannsóknarsmiðja fyrir börn á lífríki sjávarins, vitaskoðun, ljósmyndakeppni og ýmislegt fleira. Þá er fólk hvatt til að koma með skóflur og fötur til að leika sér með í fjörunni og krækja sér í furðuverur til að rannsaka undir leiðsögn líffræðinga í nýjum víðsjám í Fræðasetrinu.

Þá verður afmælismynd úr Hubble-geimsjónaukanum afhjúpuð í húsakynnum Vísindasmiðju Háskóla Íslands í dag, en haldið er upp á 25 ára afmæli sjónaukans víða um heim í dag. Jafnframt verður mikið um að vera fyrir alla fjölskylduna í smiðjunni í tilefni afmælisins og opið verður frá 12:30-15 af þessu tilefni. Klukkan 13:00 mun Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðimiðlari og verkefnisstjóri við Háskóla Íslands, halda stutt erindi um Hubble-sjónaukann og jafnframt verða í boði ýmsar sýnitilraunir, þrautir, syngjandi skál, sérkennilegir speglar, leysigeislar og ósýnilegt ljós. 

Í Kópavogi verður helgistund í Hjallakirkju, skrúðganga og fjölskylduskemmtun í Fífunni. Í Hafnarfirði verður ókeypis í sund, skátamessa, víðavangshlaup og fjölskyldudagskrá á Thorsplani. Í Árborg hefst bæjarhátíð með göngu á Ingólfsfjall, svo verður skrúðganga, barnadagskrá og opnunarhátíðin á Hótel Selfoss klukkan fimm.

Á Akureyri er Kirkjulistavika í fullum gangi og Andrésar Andarleikarnir standa sem hæst. Á Ísafirði verður barnadagskrá í Edinborgarhúsinu þar sem þemað er Goð og hetjur. Í Vestmannaeyjabæ verða lúðrasveitartónleikar og fræðsluerindi um sagnaarfinn í nútímanum. Um kvöldið verða tónleikar í Eldheimum.

En þetta er einungis lítið brot þeirra list- og menningarviðburða sem verða um allt land í dag, en nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðum sveitarfélaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert