Brotið gegn dýravelferð

mbl.is/Kristján Kristjánsson

Verkfall dýralækna í BHM er farið að bitna á velferð dýra, einkum kjúklinga, að mati Steinþórs Skúlasonar, forstjóra Sláturfélags Suðurlands. Hann sagði verkfall dýralækna hafa komið verst við kjúklingafyrirtækin.

„Þetta er sannarlega farið að bitna á saklausum dýrum og koma niður á dýravelferð. Þegar þrengslin í eldishúsunum eru komin yfir ákveðin mörk eins og nú þá kemur það niður á líðan fuglanna,“ sagði Steinþór. „Þetta er komið að þeim mörkum að ég tel að þetta sé brot á lögum um dýravelferð.“

Hann sagði dýrin líða fyrir að ekki væru veittar undanþágur til slátrunar. Nauðsynlegt væri að fá þær svo hægt væri að slátra úr eldishúsunum. Steinþór sagði það vera gegn nútímasjónarmiðum að lóga kjúklingunum með gasi til þess eins að urða þá.

Standi verkfallið áfram verða brátt einnig orðin of mikil þrengsli á svínabúunum.

Verkfall félagsmanna BHM hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu kemur þungt niður á verktökum og viðskiptavinum þeirra, ef það dregst á langinn gæti það sett strik í nýframkvæmdir. Fyrir vikið gæti uppbygging íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu tafist.

Þetta segir Svanur Karl Grjetarsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins MótX, og bendir á að bankarnir afgreiði ekki ný útlán til nýframkvæmda ef ekki er hægt að þinglýsa samningum.

Fundur er boðaður í kjaradeilu BHM og ríkisins klukkan 16.00 í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert