Íslenskir Nepalar í áfalli

Neyðarástand ríkir í Nepal þessa stundina.
Neyðarástand ríkir í Nepal þessa stundina. AFP

„Allir Nepalar sem búa hér á Íslandi eru í rosalega miklu áfalli,“ segir Ash Kumar Gurung, stjórnarmaður í félagi Nepala hér á landi. Hann segir öfluga jarðskjálftann í heimalandi sínu í gær hafa haft gríðarleg áhrif á nepalskt fólk alls staðar í heiminum. „Öllum Nepölum líður mjög illa.“

Rúmlega hundrað Nepalar búa hér á landi, og segir Ash þá alla hafa náð sambandi við fjölskyldur sínar sem eru heilar á húfi. „Það er heppilegt að flestar fjölskyldurnar eru frá öðrum svæðum í landinu, en við höfum samt miklar áhyggjur af öllum þarna úti. Við þekkjum líka marga sem eiga fjölskyldur frá þessum svæðum og þetta er mjög slæmt.

Foreldrarnir fundu fyrir skjálftanum

Ash hefur búið hér á landi í rúm sautján ár og á sína fjölskyldu hér. Foreldrar hans búa þó í Nepal, í borginni Chitwan sem er um 160 kílómetra frá höfuðborginni Katmandú, sem fór verst út úr skjálftanum. „Þrátt fyrir að þau séu svo langt í burtu fundu þau fyrir jarðskjálftunum og það urðu smá skemmdir á húsinu þeirra,“ segir hann.

Kröftugir eftirskjálftar hafa riðið yfir Nepal í dag, og segir Ash foreldra sína og aðra því hafa varann á. Fólk haldi nú til í tjöldum þar sem hætta er á því að húsin þeirra hrynji. „Við höfum miklar áhyggjur af því hvernig þetta verður næstu daga og hvort það verða fleiri skjálftar.“

Gríðarlega alvarlegt ástand í heimalandinu

Ash hefur jafnframt náð sambandi við vini sína sem búa í höfuðborginni, en hann segir þá neyðast til að vera úti í mikilli rigningu og slæmu veðri, þar sem enn sé mikil hætta á eftirskjálftum og því ekki öruggt að vera innandyra. Þá sé einnig rafmagnslaust og afar erfitt að ná sambandi við fólk á svæðinu. 

Hann segir þó stærstu vandamálin vera í fjöllunum, þar sem fimm til sex borgir eru gríðarlega skemmdar. Björgunaraðilar hafa ekki komist að þessum svæðum, þar sem vegir skemmdust í jarðskjálftanum og veður er of slæmt til að hægt sé að komast þangað með þyrlu. „Það hafa enn ekki borist neinar tölur um fjölda látinna á þessum svæðum því það er svo erfitt að komast þangað,“ segir Ash.

„Ég ætla að gera allt sem ég get“

Ash segir aðalmálið núna að finna út hvað Nepalar á Íslandi geti gert fyrir fólkið sem býr í heimalandinu, og hvort félagið geti unnið með Rauða krossinum að því að hjálpa til. Stjórn félagsins situr nú fund og metur stöðuna um það hvernig hún getur brugðist við neyðarástandinu, og hvað Nepalar á Íslandi geti gert til að leggja sitt af mörkum. „Við viljum geta gert eitthvað,“ segir Ash. „Það er erfitt fyrir okkur að komast til Nepal, og mjög langt ferðalag, svo við erum mjög hjálparlaus en viljum gera það sem við getum gert.“

Þá segir Ash félagið leita til Íslendinga og allra þeirra sem geta lagt sitt af mörkum. „Við viljum fara strax í málið og fá hjálp frá öllum þeim sem geta lagt sitt af mörkum. Ég ætla að gera allt sem ég get.“

Ash Kumar Gurung ásamt eiginkonu sinni, Minu Gurung.
Ash Kumar Gurung ásamt eiginkonu sinni, Minu Gurung. ljósmynd/Úr einkasafni
Miklar skemmdir hafa orðið í Nepal.
Miklar skemmdir hafa orðið í Nepal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert