Ekki er slátrað á markað

Kjúklingabændur fengu undanþágu hjá Dýralæknafélagi Íslands til að slátra 50.000 kjúklingum og tæplega 1.000 kalkúnum.

Jón Magnús Jónsson, bóndi á Reykjabúinu og framkvæmdastjóri Ísfugls, staðfesti að undanþágan hefði verið bundin því skilyrði að varan færi ekki á markað. Hann sagði þetta samsvara tæplega venjulegri vikuslátrun. Slátrað var um helgina.

„Við náðum slátruninni í gang, sem er mjög mikilvægt, og gátum rýmt yfirfull hús,“ sagði Jón.

Hann kvaðst vona að deilan leystist sem fyrst. Bændur væru með dýr á fóðrum og yrðu að ala þau. Hann sagði að þeir ættu engan annan kost en að sækja áfram um undanþágur til slátrunar.

Nokkur svínabú hafa sent beiðnir um undanþágur til slátrunar til undanþágunefndar dýralækna á grundvelli dýravelferðar. Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, gerði ráð fyrir að beiðnirnar yrðu teknar fyrir í dag. Þröngt er orðið um dýrin, enda var ekkert slátrað í síðustu viku.

„Við slátrum að jafnaði 1.800 til 1.900 svínum í hverri viku. Þessi dýr eru enn á búunum og svo bætist sami fjöldi við í þessari viku,“ sagði Hörður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert