Fjalla aftur um mál stúlku sem lést

Patreksfjörður.
Patreksfjörður. © Mats Wibe Lund

Endurupptökunefnd hefur samþykkt beiðni hjónanna Guðbrandar Haraldssonar og Vigdísar Helgadóttur um að Hæstiréttur taki aftur til umfjöllunar mál sem þau höfðuðu vegna andláts dóttur þeirra.

Frá þessu var greint í Kastljósi á RÚV í kvöld.

Stúlkan lést í janúar árið 1983 þegar öflugt krapaflóð skall á húsi hjónanna á Patreksfirði en hún var þá sex ára. Tvö flóð féllu þann dag í firðinum og kostuðu fjögur mannslíf. Sonur hjónanna var einnig hætt kominn þegar flóðið skall á húsinu en börnin voru stödd í eldhúsi hússins.

Drengnum var til lífs að lenda inni í eldhúsinnréttingu þegar krapi og vatn fyllti húsi og ruddi sér leið í gegnum það. Stúlkan lést aftur á móti í slysinu og eyðilagðist hús hjónanna.

Líkt og kom fram í Kastljósinu hafa hjónin allt frá því stuttu eftir slysið reynt að fá viðurkennt að varnargarður við Geyrseyrargil fyrir ofan hús þeirra hafi valdið því að flóðið beindist af miklum krafti beint á hús þeirra. Garðurinn var hækkaður stuttu fyrir flóðið. Sérfræðingar töldu líkur á því og sömuleiðis fjölskipaður héraðsdómur sem fjallaði um málið árið 1990. Hæstiréttur sneri þeim úrskurði síðar og taldi Patreksfjarðarhrepp ekki ábyrgan.

Meðal gagna sem Vigdís lagði fram til endurupptökunefndarinnar voru rannsóknir íslenskra og norskra sérfæðingar á ofanflóðum sem gerðar voru eftir að dómurinn féll í Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert