Kalt áfram en dregur úr vindi

Gera má ráð fyrir að nokkuð dragi úr snjókomu norðan- og austanlands á miðvikudag, en þá fer að snjóa syðst á landinu og stendur yfir fram að helgi. Heldur dregur úr vindi á morgun, færð og fuglum til heilla, að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Birta segir útlit fyrir að eitthvað muni hlýna vestanlands um helgina, en heilt á litið séu engir hlýindakaflar í kortunum á næstunni.

Næsta sólahringinn spáir Veðurstofan norðan 13-20 m/s og snjókomu eða skafrenningi. Skýjað og þurrt að kalla S- og SV-lands. Norðaustan 8-15 m/s um hádegi á morgun. Él og skafrenningur á N- og A-verðu landinu, en bjartviðri SV-til. Hiti víða kringum frostmark, en að 9 stigum syðst að deginum.

„Áfram má búast má við vetrarfærð og erfiðum akstursskilyrðum víða á norðan- og austanverðu landinu í kvöld. Heldur skárra veður á morgun, en þó áfram nægur vindur til að mynda skafrenning. Lægir svo um munar annað kvöld og aðfaranótt miðvikudags,“ segir í athugasemdum frá veðurfræðingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert