Neyðarsöfnun fyrir Nepal

Gríðarlegt mannfall og mikil eyðilegging varð í jarðskjálftanum á laugardag.
Gríðarlegt mannfall og mikil eyðilegging varð í jarðskjálftanum á laugardag. AFP

Gífurleg eyðilegging blasir við í 35 héruðum í Nepal eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið á laugardaginn. Að minnsta kosti 5.000 manns hafa látið lífið og yfir eru 50,000 slasaðir, segir í fréttatilkynningu frá UNICEF. Búast má við því að tala látinna muni halda áfram að hækka eftir því sem björgunarsveitir ná til afskekktari svæða, en aurskriður á vegum í kjölfar skjálftans hafa gert björgunarsveitum erfitt fyrir að ná til ýmissa fjallaþorpa.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og samstarfsaðilar á svæðinu hafa brugðist skjótt við ástandinu og hafið neyðaraðgerðir.  Að minnsta kosti 940 þúsund börn þurfa á brýnni aðstoð að halda og á næstu vikum og mánuðum hefur UNICEF einsett sér að koma lífsnauðsynlegri aðstoð til 2,8 milljón barna á skjálftasvæðunum.

Neyðarskýli, vatns- og hreinlætismál í forgang

Í höfuðborginni Katmandú er unnið að því koma upp neyðarskýlum þar sem fólk sem hefur misst húsin sín hefst við á opnum svæðum. Svipað ástand ríkir í Bhaktapur þar sem aldagömul hof hrundu til grunna. Ríkisstjórn Nepal hefur sett það í forgang að tryggja öruggt skjól þar sem fólk getur varið sig gegn rigningu og kulda. Vatn og hreinlæti eru auk þess forgangsatriði á þessum fyrstu dögum eftir jarðskjálftann þar sem skortur á hreinlætisaðstöðu og óhreint drykkjarvatn ógnar heilsu barna.

Starfsfólk UNICEF vinnur nú dag og nótt við að útvega börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynleg neyðargögn. UNICEF leiðir neyðaraðgerðir í vatns- og hreinlætismálum á svæðinu og útvegar öllum 16 neyðarbúðunum sem komið hefur verið upp í Katmandú dalnum hreint vatn. Þess utan hefur sjúkrahúsum og neyðarkýlum verið séð fyrir næringarsöltum og sinktöflum til að koma í veg fyrir ofþornun af völdum niðurgangssjúkdóms.

120 tonn af hjálpargögnum á leiðinni

Starfsmenn UNICEF í Nepal hafa útvegað segldúk og efni í skýli fyrir fjölskyldur sem hafast nú við undir beru lofti víða á skjálftasvæðinu. Einnig hefur verið dreift tjöldum til að nota sem neyðarskýli  á sjúkrahúsum fyrir stóran hóp slasaðra. Auk þess hefur UNICEF sent 120 tonn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum með flugi til Katmandú, þar á meðal vatnshreinsitöflur, lyf, hreinlætisgögn, næringarsölt og teppi

Börn eru alltaf viðkvæmust þegar neyðarástand skapast. Með takmörkuðu aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu eru börn í meiri hættu á hugsanlega lífshættulegum sjúkdómum. Mörg þeirra kunna auk þess að hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar eftir jarðskjálftann og þurfa á tafarlausri vernd að halda.

UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun

UNICEF á Íslandi biðlar til almennings að vera til staðar fyrir börn sem nú eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans. Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal með þvi að senda SMSið UNICEF í númerið 1900 og gefa 1500 krónur til neyðaraðgerða vegna jarðskjálftans eða leggja inná söfnunarreikning 701-26-102040 kt: 481203-2950.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert