Seyðfirðingar innlyksa

Svona er veðrið á Seyðisfirði þessa stundina.
Svona er veðrið á Seyðisfirði þessa stundina. Skjáskot vefmyndavél

„Hér er óttalegt skítaveður. Á láglendi er kannski ekki blindbylur en veðrið er samt mjög slæmt hér á Egilsstöðum. Það er mjög slæmt á Fjarðarheiði, alveg blint, og við munum ekkert reyna við hana í dag, hún er bara ófær. Við reyndum við hana í morgun en það var svo dimmt að það sást ekkert. Seyðfirðingar eru því alveg innilokaðir þangað til veðrið lagast,“ sagði Björn Sigurðsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ, í samtali við mbl.is.

Hér má sjá veðrið á Seyðisfirði í beinni.

Björn taldi ólíklegt að bæjarbúar lentu í miklum vandræðum með akstur á Egilsstöðum. „Ég held nú að menn séu ekki að festa sig hérna innanbæjar, þó er kannski einn og einn fólksbíll sem lendir í basli og festir sig.“ 

Björn man tímanna tvenna og var lítið að kippa sér upp við þetta vetrarskot þrátt fyrir að sumarið sé komið samkvæmt dagatalinu. „Við höfum oft fengið svona skot og stundum hafa þau komið seinna en þetta. Ég man eftir einu fyrir einhverjum árum síðan, þá kom svipað veður og núna í kringum 20. maí. Svona hret eru sem betur fer ekki árviss viðburður en þetta kemur fyrir annað slagið.“

- Veistu hvenær veður lægir og hitatölur fara hækkandi? „Þetta á að ganga niður á morgun en ég held að þetta gangi endanlega niður á miðvikudag. Veðrið var búið að vera fínt áður en þessi skyndivetur kom. Hitastigið fór alveg upp í tveggja stafa tölu um daginn og það má því segja að við höfum fengið smá forsmekk að sumrinu þá. Við hlökkum til sumarsins, hvenær svo sem það kemur,“ sagði Björn.

Fréttir mbl.is:

Sumarið kom í stutta heimsókn

Vetrarlegt í Ólafsfirði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert