Styrktartónleikar vegna skjálftans

Björgunarmenn að störfum í Nepal.
Björgunarmenn að störfum í Nepal. AFP

Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur ákveðið að halda styrktartónleika í Hörpu þann 6. júní næstkomandi í samstarfi við UNICEF og Rauða krossinn en samtökin standa nú fyrir landssöfnun til styrktar þolendum jarðskjáltans mikla í Nepal.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Alvogen mun bera allan kostnað vegna tónleikanna þannig aðgangseyrir renni óskertur til samtakanna vegna neyðaraðstoðar sem þau standa fyrir í kjölfar hamfaranna. Stefnt er að því að safna yfir 5 milljónum króna vegna tónleikanna sem renna óskert til UNICEF og Rauða krossins með stuðningi Alvogen.

Andvirði miðasölu verður skipt jafnt á milli samtakanna. Jafnframt mun Alvogen leggja 4 milljónir króna í beinum fjárstuðningi til UNICEF fyrir sama málefni. Með stuðningi Alvogen og beinu fjárframlagi er stefnt að því að 9 milljónir króna renni til UNICEF og Rauða krossins vegna neyðaraðstoðar í Nepal.

Nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum á Íslandi í dag hafa ákveðið að leggja verkefninu lið og munu spila á tónleikunum sem haldnir verða í Silfurbergi í Hörpu þann 6. júní næstkomandi. Retro Stefson, Amabadama og Ylja hafa öll boðað komu sína og búist við að fleiri bætist við á næstu dögum.  Stefnt er að því að selja 1.100 miða á tónleikana og safna þannig 5 milljónum króna. Miðasala mun hefjast á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert