Sumarið kom í stutta heimsókn

Það er ekki sumarlegt um að litast á Akureyri í …
Það er ekki sumarlegt um að litast á Akureyri í dag mbl.is/Skapti Hall­gríms­son

„Veðrið hefur verið slæmt í bænum síðan í gærmorgun. Það er hálka, ofankoma og snjór á götum,“ sagði Þórarinn Jóhannesson, lögreglumaður á Akureyri, í samtali við mbl.is um „blíðuna“ á höfuðstað Norðurlandsins.

- Eru götur bæjarins færar? „Já, það er engin ófærð. Þetta er bara púður og sleppur því alveg og ef fólk fer sér bara hægt þá er allt í góðu lagi. Mér finnst samt eins og það séu alltaf að koma einhver hret á þessum tíma, eða svipuðum. Þetta kemur í mars, apríl eða maí, maður man þetta ekkert nákvæmlega. Á samt ekki að vera komið sumar?“ spurði Þórarinn og hló.

Akureyringar eru samt orðnir langeygir eftir sumrinu, þegar mælirinn á Ráðhústorginu fer ekki niður fyrir 20 gráðu hita, að þeirra sögn. Þórarinn hefur áhyggjur af því að dýrin komi illa úr þessari vetrartíð. „Ég held að þetta sé alverst fyrir fuglana, við mannfólkið lifum þetta alveg af. En þetta er hundleiðinlegt, auðvitað á að vera komið sumar!“

Þórarinn benti blaðamanni á að sumarið hafi komið í stutta heimsókn um daginn. „Sumarið kom hérna aðeins í síðustu viku, þetta er nú orðið tómt rugl. En þetta líður hjá á endanum. Kannski kemur sumarið um næstu helgi eða í næstu viku. Annars fer maður bara að neyðast til að skreppa suður í hlýjuna.“

Blaðamaður svaraði honum og sagði að veðrið í Reykjavík væri alls ekki sumarlegt. „Nú, jæja. Þetta kemur fljótlega hjá okkur öllum,“ sagði Þórarinn hlæjandi.

 Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert