Úr sumarstemningu í ófærðarbasl

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Íbúar á Seyðisfirði sitja nú fastir heima þar sem lokað er á Fjarðarheiði vegna veðurs. Nokkuð hefur snjóað í bænum en götur hafa verið hreinsaðar, að sögn Arnbjargar Sveinsdóttur, forseta bæjarstjórnar.

Arnbjörg segir að bætt hafi í veðrið seinnipart laugardags, en mikil ofankoma hafi komið bæjarbúum að óvörum.

„Þetta hefur verið svo snjóléttur vetur að maður trúði því ekki þegar fór að hrúga niður snjó núna,“ segir hún. „Það var allt orðið autt langt upp í fjöll og engin snjór hérna í bænum. Bara sumarfílingur, 15-16 stiga hiti fyrir nokkrum dögum og fólk bara að spóka sig.“

Arnbjörg segir íbúa ekki væsa um aðföng til nokkura daga, eina áhyggjuefnið sé að upp komi alvarleg veikindi. Þá hafi það einhvern tímann gerst að lyf hafi vantað þegar heiðin varð skyndilega ófær.

Að sögn Arnbjargar hyggur Vegagerðin á aðgerðir á heiðinni á morgun, en hún segir alls óvíst hvenær hún opni. Fjöldi fólks missir úr vinnu á meðan ófært er, m.a. starfsmenn álversins.

Frétt mbl.is: Seyðfirðingar innlyksa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert