Vísi laumufarþegum af vinnustöðum

AFL Starfsgreinafélag er eitt fjölmennasta verkalýðsfélag landsins í dag. Myndin …
AFL Starfsgreinafélag er eitt fjölmennasta verkalýðsfélag landsins í dag. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ernir Eyjólfsson

Grunur leikur á að tilteknir einstaklingar séu að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir um að neita verkafólki um sanngjörn laun með því að brjóta aftur samstöðu í komandi verkföllum. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá AFLi starfsmannafélagi. 

Þar segir að fréttir hafa borist af því að allt að 40 nýir félagsmenn hafi verið teknir inn í Stjórnendafélags Austurlands á aðalfundi um helgina. Grunur leiki á að tilteknir einstaklingar séu að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir um að neita verkafólki um sanngjörn laun með því að brjóta aftur samstöðu í komandi verkföllum.

„Þetta er í takt við það sem forystumenn AFLs hafa haldið fram, að Verkstjórafélagið sé í raun ekki stéttarfélag í kjarabaráttu heldur klúbbur sem sækir allar kjarabætur til baráttu verkalýðsfélaga  en leggur ekkert til sjálfur. Alvöru verkalýðsfélög taka ekki við nýjum félögum úr félögum sem standa í vinnudeilu.

Ástæða er til að benda fólki á að verkfall verkafólks á Austurlandi er óháð því hvaða stéttarfélag menn greiða iðgjald til -  AFL Starfsgreinafélag er eina stéttarfélagið sem gerir kjarasamninga um störf verkafólks á félagssvæðinu og verkfallið nær til starfa verkafólks en ekki félagsaðildar. Verkfallsverðir AFLs munu því hafa afskipti af öllum þeim sem hyggjast ganga í störf verkafólks nk. fimmtudag.

AFL Starfsgreinafélag beinir því til verkafólks á Austurlandi að þola ekki að menn sem kalla sig verkstjóra gangi í störf verkafólks og að verkfallsverðir vísi þessum „laumufarþegum alvöru kjarabaráttu“ út af vinnustöðum í komandi verkfalli. AFL Starfsgreinafélag mun síðan grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækjum sem taka þátt í verkfallsbrotum,“ segir í tilkynningu. 

Uppfært kl. 18.36:

Benedikt Jóhannsson, formaður Stjórnendafélags Austurlands, hafnar alfarið ásökunum AFLs og segir að þeir 40 félagsmenn sem formlega voru teknir inn í félagið á aðalfundinum hafi í raun verið að bætast í raðir félagsins frá síðasta aðalfundi.

Þá segir hann ekki rétt að þeir hafi gengið úr öðrum félögum sökum yfirstandandi kjaradeila og ítrekar að Stjórnendafélagið sé sannarlega stéttarfélag. „Þetta er auðvitað alveg kolrangt,“ segir hann. „Við erum bara stéttarfélag alveg eins og AFL.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert