Vön snjó langt fram í maí

Svona er veðrið á Hámundarstaðahálsi.
Svona er veðrið á Hámundarstaðahálsi. Skjáskot/Vegagerðin

Bjarni Th. Bjarnason, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, sagði veðrið í bænum ekki einkennandi fyrir þennan árstíma. „Það bara snjóar og snjóar. Við erum reyndar vön þessu í Dalvík í apríl og jafnvel maí,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.

„Ég kíkti í kaffi til eldri manns um daginn sem sýndi mér myndir sem voru teknar árið 2006, 24. og 25. maí. Þá var snjómokstur í bænum alveg á fullu og skaflar úti um allt, svo þetta er ekki það versta.“ Svona hlutir geti gerst og menn kippi sér lítið upp við þetta.

Mokstursmenn voru á fullu í bænum í morgun við að ryðja helstu leiðir innanbæjar. „Við þurftum að láta moka helstu umferðaræðar. Það er fært til Ólafsfjarðar og Akureyrar en skólaaksturinn í morgun var felldur niður. Það var gert vegna snjóflóðahættu við Múlagöngin.“

Sumarið kíkti í stutta heimsókn um daginn og því kom þetta hret eflaust einhverjum á óvart. „Það kom alveg vika eða tíu góðir dagar um daginn með ágætis hita. Einhverjir voru farnir að gera sér vonir um að vorið væri komið.“Veðurklúbburinn á Dalvík spáði því að maí yrði snjóþungur í ár. „Vonandi rætist sú spá ekki hjá þeim,“ sagði Bjarni.

Snjókoman á að minnka næstu daga en það þýðir ekki að vorið sé handan við hornið. „Spáin segir að ofankomunni linni fljótlega en frosthörkur aukist þegar líður á vikuna. Það gerist oft hér á Norðurlandi þegar snjókoman hættir, þá verður himininn opinn fyrir kulda og veðrið snöggkólnar,“ sagði Bjarni Th. Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert