Ingvar ósáttur við yfirlýsingu ÍR

Ingvar Hjartarson
Ingvar Hjartarson Eva Björk Ægisdóttir

„Ég talaði við stjórnarmann FRÍ eftir hlaupið og hann sagði mér að vegna þess að þetta er Íslandsmeistaramót sé kærufrestur hálftími eftir að úrslit séu birt. Það þykir mér eðlilegur tími þegar keppt er í Laugardalshöllinni eða álíka en mjög stuttur kærufrestur þegar keppt er í götuhlaupi,“ sagði Ingvar Hjartarson, úr Fjölni, sem hafnaði í öðru sæti í Víðavangshlaupi ÍR á sumardaginn fyrsta. 

Arnar Pétursson úr ÍR sigraði hlaupið en var sakaður um að hafa stytt sér leið á lokakaflanum. Frjálsíþróttasamband Íslands komst að þeirri niðurstöðu að Arnar hefði ekki rofið neinar merkingar og því munu úrslit hlaupsins standa.

Ingvar er ekki sáttur við yfirlýsingu ÍR vegna hlaupsins. Þá finnst honum að framkvæmdastjóri ÍR, sem var á staðnum og sá atvikið, hefði átt að gera athugasemd við þetta.  

Brautarverðirnir komu hlaupandi

En hvað finnst Ingvari um þetta, hefur hann séð umrætt myndband? „Ég hef auðvitað séð myndbandið og finnst þetta miklu verra brot en mér fannst í hlaupinu sjálfu og strax að því loknu. Eina sem ég tók eftir á staðnum er að Arnar tekur betri beygju en ég og kemur á undan mér út úr beygjunni. Ég áttaði mig ekkert á því hvert hann fór eða hvað gerðist.“

Í yfirlýsingu mótshaldara hlaupsins kemur fram að það sé ekkert við Arnar að sakast vegna þess að brautin hafi ekki verið nógu vel merkt. Er Ingvar sammála því?

 „Já, mér finnst ekkert við Arnar að sakast þar sem brautin var ekki nógu vel merkt. Það vantaði borða eða grindverk til að merkja hlaupaleiðina betur. Ef horft er á myndbandið sést að brautarverðir koma hlaupandi um leið og við erum komnir framhjá til að koma í veg fyrir að aðrir hlauparar geri sömu mistök og Arnar gerði. Það er því greinilegt að brautarverðir átta sig strax á því að þetta sé ekki líðandi, ekki rétt hlaupaleið og fara þeir til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.“

Þarf þá ekki að bæta skipulagningu götuhlaupa til að koma í veg fyrir svona vafamál í framtíðinni? „Mér finnst að það þurfi að gera það. Allavega þegar hlaupið er svona stórt finnst mér vanta betri merkingar; hvar er leiðin og hvar er leyfilegt að hlaupa?“

Segist ekki vera svekktur út í Arnar

Ingvar sagðist ekki vera svekktur út í Arnar. „Ég get ekki pirrað mig út í hann, þetta hefði auðveldlega getað farið á hinn veginn. Það er líka hlutur sem ég er forvitinn hvernig hefði farið, ef þetta hefði verið öfugt. Hefðu ÍR-ingarnir þá kært hlaupið vegna þess að þeirra maður lenti undir?  Hefði þetta verið dæmt öðruvísi?“

Hann sagði að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hlaup sé á gráu svæði og ÍR-ingur komist upp með það. „Ég hef lent í þessu áður. Þá tilkynnti hlaupstjóra strax, áður en úrslit voru tilkynnt, að hlaupari hefði brotið af sér í hlaupinu. Það var ÍR-ingur og ekkert var aðhafst í því máli. ÍR-ingur var einnig hlaupstjóri í því máli og ég spyr því hvort það sé eðlilegt?

Eðlilegt að framkvæmdastjóri ÍR hefði kært

Ingvar sagði að framkvæmdastjóri FRÍ hafi verið á hlaupinu sjálfu og séð atvikið. Síðar gefi hann út yfirlýsingu vegna málsins. „Er þá ekki hans hlutverk að kæra þetta, sem framkvæmdastjóra FRÍ og gera athugasemd við þetta. Ég talaði við hann eftir hlaupið og mamma heyrði hann fussa og sveia yfir þessu á staðnum og manni hefði þótt eðlilegt að hann gerði eitthvað í þessu á staðnum.“

Ingvar er ekki sáttur við yfirlýsinguna, þar sem kemur fram að kærufrestur vegna hlaupsins sé liðinn. „Mér finnst ótrúlegt að þeir segi að kærufresturinn sé liðinn. Þeir segja því skýrt að það sé alveg sama hversu mikið þið tuðið, þessu verður ekki breytt. Það er því alveg sama hvað maður gerir, tuðar, eða sýnir gögn, stjórnin og ÍR-ingarnir ætla ekkert að breyta þessu,“ sagði Ingvar.

Hér sést hvar Arnar kemur rétt á undan Ingvari í …
Hér sést hvar Arnar kemur rétt á undan Ingvari í mark mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert