Lóan leitar að æti í húsagörðum

Síðustu daga hefur mátt sjá lóur á vappi í húsagörðum …
Síðustu daga hefur mátt sjá lóur á vappi í húsagörðum höfuðborgarinnar í leit að æti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íbúar höfuðborgarinnar hafa síðustu daga tekið eftir vorboðanum ljúfa, lóunni, á ferðinni á nokkuð óhefðbundnum stöðum eins og húsagörðum, fótboltavöllum og kirkjugörðum. Hafa margir undrast þessa hegðun lóunnar sem leggur yfirleitt ekki í vana sinn að vappa um húsagarða ásamt þröstum og öðrum smáfuglum.

„Þetta er í kjölfarið á kuldanum. Hún er að leita sér að æti en það er yfirleitt meiri hiti í jörðinni í húsagörðum og meiri líkur á að hún nái sér í eitthvað að éta,“ segir fuglafræðingurinn Jóhann Óli Hilmarsson aðspurður um þessa undarlegu hegðun lóunnar. „Ormarnir eru frekar á kreiki í heitum húsagörðum heldur en á víðavangi.“ Að sögn Jóhanns Óla sækir lóan einnig töluvert í fjörur í leit að æti vegna kuldans.

Aðspurður hvort að kuldinn sem hefur verið á landinu síðustu daga hafi áhrif á fleiri farfugla en lóuna er Jóhann Óli ekki viss um það. „Það komu einhverjar fáeinar kríur til landsins sem sáust á Höfn. En svo skall á norðan áttin og þá bíða þær bara. En það eru komnir fuglar, lóan kemur náttúrulega snemma en svo eru þrestir og svartþrestir hér og spóar til dæmis.“

Jóhann Óli segir að fuglarnir á Suðurlandi séu heppnari en þeir fyrir norðan en þar er enn snjór. „Þeir reyna þó að bjarga sér. Það er samt betra að fá svona hret fyrir varptímann,“ segir Jóhann Óli. „Það væri verra ef þetta kæmi í maí eins og árið 2006. Þá drapst mikið af fuglum.“

En er eitthvað sem hægt er að gera til þess að létta lóunum lífið á meðan kuldinn gengur yfir?  „Nei ekki beint. En það er hægt að gefa þröstum og öðrum smáfuglum eitthvað æti. En vonandi fer að hlýna svo að lóurnar geti skipt um umhverfi.“

Lóan nær sér í æti í görðunum og fjörum.
Lóan nær sér í æti í görðunum og fjörum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert